Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hjalteyri

Hjalteyri


Hjalteyri
Ferðavísir

 Dalvík 44 km, <Hjalteyri > Akureyri 23 km,

Hjalteyri er smábyggðarkjarni norðan Akureyrar á Galmaströnd, þar sem var mikið athafnalíf á fyrri  hluta 20. aldar. Litla höfnin á sandeyrinni er skjólgóð og veitingahús hóf rekstur sumarið 2003. Norðmenn hófu þarna síldarsöltun upp úr 1880 og þorpið varð löggiltur verzlunarstaður 1897. Svíar hófu þarna útgerð 1905 og Skotar næsta ár samtímis Þjóðverjum, sem gerðu mest út 10 skip til þorsk- og síldveiða. Síldin var stundum veidd í landnætur frá sjávarkambinum vegna þess, hve aðdýpi er mikið. Þarna fengu margir atvinnu á þessum gósenárum en árið 1914 hurfu allir útlendingar á brott og þá hafði einnig verið þrengt að möguleikum þeirra til fiskveiða hér við land.

Kveldúlfur hf., fyrirtæki Thors Jensens, tók Hjalteyri á leigu 1913. Thor ætlaði að reisa íshús og nota ís af tjörninni til að geta flutt út ferska síld til niðursuðu í Hamborg, en stríðið kom í veg fyrir það. Kveldúlfur hf. keypti Hjalteyri og jarðir upp til fjalls til að hafa nægilegt athafnarými og aðgang að góðu vatnsbóli. Þrátt fyrir góðan afla og mikla framleiðslu, átti fyrirtækið erfitt uppdráttar á kreppuárunum. Árið 1937 byggði það stærstu síldarverksmiðju í Evrópu á Hjalteyri. Hún var starfrækt til 1966. Á hinum undraskamma byggingartíma hennar voru frosthörkur miklar og þá var hitaður sjór til að blanda í steypuna, sem var hrærð í vélknúinni hrærivél.

Fyrirtækið lét einnig reisa nokkur glæsileg íbúðarhús. Framkvæmdastjórinn, Richard Thors og síðar sonur hans, Thor R. Thors, bjuggu í 500 m² húsi með bílskúr fyrir 4 bíla og aðstöðu fyrir þjónustufólk. Það er nyrzt af húsunum á brekkubrúninni. Árið 2007/2008 bar mikið á óskýrðum hávaða í húsinu, sem upphófst á reglulegum tímum dag hvern. Margt var gert til að komast að upptökunum, en engar marktækar niðurstöður höfðu fengizt í upphafi árs 2009.

Annað glæsihús er Ásgarður, þar sem verksmiðjustjórinn, Pétur Jónsson, bjó í 17 herbergjum Það stendur stakt fremst á brekkunni. Þrátt fyrir mikinn mun milli hinna ríku verksmiðjueigenda og almennings, voru þeir velliðnir og hjálpuðu mörgum í neyð án þess að krefjast greiðslu fyrir.

Hvarf síldarinnar á sjöunda áratugnum olli því að síðast var brætt í verksmiðjunum 1966 og atvinnulífið breyttist eins og annars staðar í fiskiplássum á Norðurlandi. Kveldúlfur h.f. pakkaði saman og útgerð smábáta jókst. Aflaföng voru góð og höfnin var bætt með sjóvarnargarði í kringum 1980. K. Jónsson og Co. hóf niðursuðu um 1970 og geymdi hrogn og síld á Hjalteyri. Síldarbresturinn hafði því ekki eins mikil áhrif á atvinnulíf Hjalteyringa eins og víðast annars staðar.

KEA hóf fiskverkun á Hjalteyri í kringum 1980. B.G.B.-Snæfell hf. hóf síðar þurrkun fiskhausa til útflutnings (u.þ.b. 2000 tonn á ári og 200 tonn af skreið). Fiskeldi Eyjafjarðar hóf tilraunastarfsemi með lúðueldi 1985 (síðar Fiskey ehf.). Lúðuhrognin eru flutt frá Dalvík til klaks á Hjalteyri. Mestur hluti seiðanna er fluttur úr landi eftir að þau eru orðin 5 gr að þyngd en 10-20% þeirra eru send til áframeldis í Þorlákshöfn og síðar slátrunar. Árangurinn í lúðueldinu hérlendis hefur vakið heimsathygli og árið 2002 framleiddi Hjalteyrarstöðin 450.000 seiði.

Íbúafjöldinn árið 1950 var 130 manns. Fólki fækkaði síðan verulega en var (2003) búa 60-70 manns á staðnum. Nokkur gömlu húsanna voru lagfærð, ný byggð og sum hinna gömlu eru notuð sem sumarbústaðir. Árið 2002 var borað eftir heitu vatni á Hjalteyri með mun betri árangri en nokkurn óraði fyrir. Akureyri á eftir njóta góðs af því og þegar var hafizt handa við að leiða það í húsin á Hjalteyri.

Endursögð og stytt grein í Félagsblaði FL apríl 2003.
Heimildir:
Thor Jensen. Framkvæmdaár. Minningar II. Bókfellsútgáfan hf. Reykjavík 1955.
Agnar Þórðarson. Hjalteyri. Munnleg heimild.
Eiríkur Jensen, Akranesi. Munnleg heimild.
Friðrik Magnússon, Hálsi, Svarfaðardal. Munnleg heimild.
Jón Þór Benediktsson

Myndasafn

Í grennd

Akureyri, ferðast og fræðast
Akureyri er stærsti kaupstaður landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi fallegi bær kúrir í fallegum  ramma innst í Eyjafirði vestanverðum og einhver…
Dalvík
Dalvík er kaupstaður í mynni Svarfaðardals. Aðalatvinnuvegirnir eru útgerð, fiskvinnsla, iðnaður og verslun, en þjónusta við ferðamenn eykst sífellt. …
Eyjafjarðará Óshólmar
Þetta svæði skiptist í Leiru og Hólma og nær frá Höephnersbryggju að Melgerðismelum í Eyjafjarðardal.   Þar er gróður og dýralíf margbreytilegt og fyr…
Eyjarfjarðará
Eyjarfjarðará rennur norður eftir Eyjafjarðardal, Upptökin eru suður í botni dalsins, og koma þar saman   margir lækir úr fjöllunum í kring og bera su…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )