Hítardalur er fornt höfuðból, sem kemur víða við sögu í gömlum heimildum. Til forna hét bærinn og fellið fyrir ofan hann Húsafell, en nú heitir það Bæjarfell. Eitthver mannskæðasti eldsvoði Islandssögunnar varð í Hítardal, þegar Magnús Einarsson, biskup í Skálholti, brann þar inni 30. september 1148 ásamt 70-80 manns, sem voru þar í veizlu.
Hítardalsklaustur var stofnað árið 1166, líklega að hluta til minningar um brunann mikla í Hítardal árið 1148. Þorleifur Þorláksson, bóndi og höfðingi í Hítardal, gaf jörðina til stofnunar klaustursins. Engar heimildir hafa fundizt um klausturlíf þar, þannig að óvíst er um tilvist þess. Engu að síður eru tveir ábótar tilgreindir þar, Hreinn Styrmisson, sem var vígður 1166 (†1177), og Hafliði (†1201 skv. annálum. Líklega var þarna Benediktsklaustur.
Tröllkonan Hít bjó í Hundahelli í Bæjarfellinu og þangað bauð hún Bárði Snæfellsás og fleirum af sama kyni í samkvæmi. Steindrangarnir neðan bæjar í Hítardal eru sagðir vera Hít og Bárður, sem þar dagaði uppi en önnur saga segir, að Bárður hafi gengið í Snæfellsjökul, þannig að þarna sé um annan karl að ræða.
Um dalinn rennur Hítará, sem er ágætis laxveiðiá, sem kemur úr Hítarvatni. Í Hítarvatni er góð silunsveiði.
Hraun þekja dalbotninn og uppblástur er verulegur. Nokkur eyðibýli eru í dalnum.
Gönguleiðin að Langavatni og þaðan að Hreðavatni er áhugaverð og á þessari leið eru fleiri góð veiðivötn á heiðunum.