Gönguleiðin Hellismannaleið
Gönguvegalengdin er samtals um 55 km. Hér er henni skipt í þrjá þægilega áfanga. Hún hefst í Landmannalaugum og endar á Rjúpnavöllum í Landsveit. Hún er öll stikuð og skálar eru í Landmannalaugum, Landmannahelli, Áfangagili og á Rjúpnavöllum. Dagleiðirnar eru svipaðar og á Laugaveginum.
Fyrsti áfanginn liggur frá Landmannalaugum í Landmannahelli, 16,5 km. Gengið er af stað í 590 metra hæð yfir sjó í Landmannalaugum yfir Laugahraun, líkt og við upphaf Laugavegargöngu. Við Brennisteinsöldu skiptast leiðir. Þar er farið til hægri út Vondugilsaura og upp Uppgönguhrygg. Þaðan út í Dómadal. Þar fyrir ofan er hæsti punktur leiðarinnar, 823 metrar. Við Dómadalsháls er farið fyrir Dómadalsleið og því er hægt að tvískipta leiðinni, eftir úthaldi og getu hvers og eins. Frá Dómdalshálsi er farið út með Lifrarfjallavatni að vestan og inn fyrir Löðmundarvatn, gengið meðfram Löðmundi og þaðan upp Hellisfjall og að skálum við Landmannahelli. Göngutíminn er 5-7 klst.
Annar áfangi er úr Landmannahelli, (590 m hæð) í Áfangagil og er um 17-18 km langur. Gengið er frá skálasvæðinu í Landmannahelli út undir Herbjarnarfell og þaðan í átt að Sauðleysum og út Lambaskarð. Þar er farið yfir Lambafitjahraun, sem rann 1913. Þar þarf að vaða yfir Helliskvíslina og er það eina áin á allri leiðinni, tiltölulega auðveld yfirferðar. Við Valagjá handan Helliskvíslar tekur við gamla Dyngjuleiðin og getur fólk því tvískipt leiðinni. Frá Valagjá er farið milli Valahnúka og Valafells, sem leið liggur í Áfangagil. Göngutími 5-7 klst.
Þriðji áfanginn er frá Áfangagili (um 260 m hæð) að Rjúpnavöllum (um 150 m hæð) og er um 21. km. Í Áfangagili eru nýjar réttir, þar sem árlega er réttað fé sem gengur á Landmannaafrétt. Gengið er út með öldunni fram að gömlum fjárbyrgjum í Sölvahrauni. Þaðan er gengið að hraunjaðri Skólkvíahraunsins frá 1970. Síðan liggur leið með Sauðfellsöldu að eystri upptökum Ytri-Rangár og meðfram ánni. Þar sjást Fossabrekkur við Rangá mjög vel. Þaðan er farið að kjafti Ófærugils, yfir brú og haldið svo áfram sem leið liggur að Rjúpnavöllum. Þar er nýtt skálasvæði í Landi Merkihvols, sem er efsta jörð í Landsveit. Göngutíminn er 5-7 klst.
Fært er öllum bílum að Rjúpnavöllum, sem eru rétt fyrir ofan Galtalækjarskóg. Hægt er að fara þangað daglega með rútu og einnig í Landmannahelli og Landmannalaugar með viðkomu á Leirubakka. Nauðsynlegt er að láta vita um farþega á þessum stöðum og í hvora áttina þeir ætla að fara.
SKÁLAR Á GÖNGULEIÐINNI LANDAMANNALAUGAR – RJÚPNAVELLIR:
Landmannalaugar
Landmannahellir
Áfangagil
Rjúpnavellir