Héðinsfjörður er 5-6 km langur og rúmlega 1 km á breidd. Vestan hans er Hestfjall (536m) og að austan Hvanndalabyrða (624m). Ekkert undirlendi er meðfram ströndinni og upp bakka að fara til að komast inn í grösugan dalinn. Þar voru nokkrir bæir fram undir miðja 20. öldina. Héðinsfjarðarvatn, allgott veiðivatn, er í utanverðum dalnum. Tveir fjallvegir lágu til Siglufjarðar um Hestskarð og Hólsskarð, sem eru verða æ fjölfarnari. Gömul alfaraleið liggur um Fossabrekkur til Ólafsfjarðar.
Hinn 29. maí 1947 flaug DC-3 flugvél Flugfélags Íslands með 25 manns beint á Hestfjall og allir fórust. Bók var gefin út um þetta mannskæðasta flugslys hérlendis árið 2009. Snjóflóð voru mannskæð í Héðinsfirði fyrrum. Veturinn 1724-25 féll eitt slíkt á bæinn Vatnsenda og tók 6 mannslíf. Tveir drengir, sem voru ekki inni í bænum, þegar flóðið féll, grófust undir því en gátu losað sig á fjórða degi. Annar þeirra brauzt yfir til Siglufjarðar og sótti hjálp. Ein stúlka fannst á lífi. Í Héðinsfirði er skýli Slysavarnarfélags Íslands.
Sveitarfélögin Ólafsfjörður og Siglufjörður voru sameinuð árið 2006 eftir að vænta mátti samgöngubóta milli kauptúnanna. Það var þó ekki fyrr en 2. október 2010, að tvenn göng voru opnuð milli þeirra. Göngin frá Ólafsfirði í Héðinsfjörð eru 6,9 km löng og þaðan til Siglufjarðar eru hin göngin 3,7 km löng. Áætlanir um notkun ganganna voru fremur varfærnar, svo það kom flestum þægilega á óvart, að umferð um þau var verulega meiri en væntingar.