Héðinsfjarðarvatn er í 5-6 km löngum og 1 km breiðum og grösugum dal, sem var í byggð fram til 1857. Það er 1,7 km² í 3 m hæð yfir sjó. Vestan dalsins er Hestfjall, þar sem DC-3 flugvél Flugfélags Íslands fórst 29. maí 1947 og með henni farþegar og áhöfn, 25 manns. Auðveldasta leiðin til Héðinsfjarðar er á sjó (35-45 mín. frá Siglufirði), ella er yfir há fjallaskörð að fara með allt á bakinu. Slysavarnarskýli er í Héðinsfirði.
Með komu Héðinfjarðaganga er nú auðvelt að nálgast vatnið.
Veiðifélag Héðinsfjarðar er með vatnið á leigu.
Það er dálítil vatnableikja og mikil og væn sjóbleikja í vatninu, 1-5 pund. Hún gengur í það síðla sumars. Mikið dýralíf er við vatnið og fuglar spakir. Sögur eru til af rebba, sem hefur heimsótt veiðimenn alls óhræddur og sótt sér fisk fyrir lítið. Þetta vatn er ekki mikið stundað, en á þó sína áhangendur, sem sækjast eftir friði og góðri veiði. Veiðihús er við norðurenda vatnsins.