Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hamarsdalur

Hamarsdalur og Hamarsá

Hamarsdalur er þröngur og langur dalur, sem gengur upp úr Hamarsfirði og er oft nefndur   Bragðavalladalur að sunnanverðu, sunnan Hamarsár. Efstu drög hans eru norðan Þrándarjökuls og hann einkennist mjög af hjöllum og þverhníptum hömrum. Þarna er nokkuð um grösuga staði og kjarr en víða er þó uppblástur. Í dalsmynninu er bærinn Bragðavellir, Hamar er beint á móti, norðan ár og Hamarssel nokkru innar. Eyðibýlið Veturhús er miklu innar í dalnum og þar vaxa falleg reynitré í gömlum skrúðgarði. Eldra nafn dalsins er Sviðinhornadalur, eftir Birni sviðinhorna, sem nam Álftafjörð hinn nyrðra (Hamarsfjörð) inn frá Rauðaskriðum og Sviðinhornadal. Á afrétti norðan dalsins heitir enn þá Sviðinhornahraun. Víða sést í dölum á þessum slóðum, að suðurhlíðar þeirra eru vaxnar grámosa en norðurhlíðarnar grasi, lyngi og kjarri. Bragðavellir eru meðal bæja í dalnum.

Bærinn Hamar er norðan Hamarsár við botn fjarðarins. Þar var bænhús fyrrum, sem var þjónað frá Háli, en er löngu aflagt. Í túninu er eitt margra völvuleiða á Austfjörðum. Talið er að Björn sviðinhorna hafi búið að Hamri. Hinn 7. júlí 1627 létu alsírskir sjóræningjar greipar sópa að Hamri og tóku 13 manns með sér. Magnús bóndi og fjögur born hans voru meðal þeirra, en húsmóðirin var skilin eftir helsærð eða látin milli bæja.

Hamarsá rennur um samnefndan dal út í Hamarsfjörð. Hún er meðal lengstu og vatnsmestu áa í Austfjarðahálendinu og á upptök sín uppi á heiðum I 800-900 m hæð yfir sjó, þar sem heitir Hraun, norðaustan Vatnajökuls. Í hana bætast kvíslar frá Þrándarjökli, sem gera hana jökullitaða í leysingum og sólbráð. Kjötlettur er við ána neðarlega í dalnum. Þjóðsagan segir, að þar hafi fé bónda eins hrakizt framaf og farizt í ánni. Bóndanum varð svo mikið um, að hann svipti sig lífi. Sagt er, að svipur hans sé á sveimi við Kjötklett. Brúin yfir ána var byggð árið 1968.

Hamarsfjörður er stuttur og breiður á milli Berufjarðar og Álftafjarðar, Melrakkanes að sunnanverðu og Búlandsnes að norðanverðu. Hann telst annar syðsti fjörður Austfjarða. Þvottáreyjar og sandrif girða hann frá hafi og hann er af sama meiði og Álftafjörður, enda var hann kallaður Álftafjörður nyrðri fyrrum. Rauðlitar ríólítskriður eru áberandi norðan við miðjan fjörðinn.

Myndasafn

Í grennd

Álftafjörður Austurlandi
Syðstur Austfjarða, sjávarlón eða fjörður, er stöðugt grynnkar og minnkar vegna framburðar ánna Hofsár og Geithellnaár. Fyrir fjarðarmynnið gengur san…
Breiðdalsvík
Í Breiðdal er mesta undirlendi á Austfjörðum og fjöllin kringum Breiðdal eru hin hæstu þar og ná sum þeirra 1100 til 1200 metra hæð. Breiðdalsá er ein…
Gautavík
Gautavík er bær við norðanverðan Berufjörð. Hann stendur þar við samnefnda vík, þar sem var lengi  og   kaupstaður. Rústir hans sjást enn þá. Þær eru …
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )