Fnjóskadalur (stundum kallaður Hnjóskadalur áður fyrr) er mikill dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann dregur nafn af svokölluðum „fnjóskum“, sem eru „þurrir og feysknir trjábútar.
Dragáin Fnjóská rennur eftir honum. Í suðri endar hann í þrem eyðidölum, Bleiksmýrardal, Hjaltadal og Timburvalladal, en nyrst sveigir dalurinn til vesturs og heitir þar Dalsmynni. Um það rennur Fnjóská til sjávar í Eyjafirði. Norður af dalnum er Flateyjardalsheiði og norðan við hana Flateyjardalur. Vestan dalsins er Vaðlaheiði og vestan hennar er Svalbarðsströnd. Austan dalsins eru einnig fjöll, að norðan milli hans og Köldukinnar og að sunnan milli Fnjóskadals og Bárðardals. Þar á milli er Ljósavatnsskarð.
Hringvegurinn liggur um Fnjóskadal og til vesturs til Svalbarðsstrandar um Víkurskarð, nokkru sunnan við Dalsmynni, en til austurs um Ljósavatnsskarð til Bárðardals. Áður lá vegurinn til Eyjafjarðar upp úr dalnum á móts við Ljósavatnsskarð yfir Vaðlaheiði, en nú hafa verið gerð jarðgöng undir heiðina, Vaðlaheiðargöng.