Þetta svæði skiptist í Leiru og Hólma og nær frá Höephnersbryggju að Melgerðismelum í Eyjafjarðardal. Þar er gróður og dýralíf margbreytilegt og fyrrum var þar mikilvægt heyskaparland. Á meðan svæðið var notað sem beitiland og til heyskapar þreifst gróður illa, s.s. runnar og trjágróður. Nú eru stór svæði friðuð, þannig að gul- og loðvíðir hefur breiðzt út og dafnað. Gulstör myndar samfelld gróðurlendi í hólmunum ásamt hálmgresi, engjarós og reiðingsgrasi. Birki vex á stangli, víðast hærra en runnarnir, sem eru oft miklir um sig. Á bökkunum vex einnig lágvaxinn grávíðir, ætihvönn og geithvönn.
Blástjarna og engjavöndur eru sjaldgæfar tegundir en í síkjunum vex stórvaxið fergin og sef. Rauðsmári myndar stórar breiður á bökkunum og hvergi er eins mikið af honum á landinu. Rauðsmárinn er innflutt tegund, sem hefur líkast til borizt frá gróðrarstöðinni við Minjasafnið. Síðsumars eru bláar breiður af umfeðmingi á Hólmunum.
Leiran er fæðustaður margra fuglategunda, einkum á vorin. Meðal hinna 25-30 tegunda, sem verpa þar, eru grágæsir, álftir, óðinshanar, kjóar, stormmávar, kríur og hrossagaukar. Fleiri tegundir koma þangað til að leita ætis, s.s. hettumávar, stelkar, tjaldar, jaðrakanar, sendlingar, lóuþrælar, sandlóur og margar tegundir anda, æðarfugl, stokkendur, rauðhöfðaendur, skúfendur og hávellur. Æðarfuglinn og nokkrar endur verpa talsvert á flugvallarsvæðinu. Talsverður fjöldi af ritu er á Leirunum seinni hluta vetrar í leit að loðnu á Pollinum.
Selir eiga þar samastað síðla vetrar og fram á vor og fer fjölgandi. Þetta er aðallega hringanóri, sem er heimskautadýr. Hann kæpir á ísnum norður af landinu. Mikið er af hval í firðinum, allt inn fyrir Hrísey, aðallega hnúfubakar, höfrungar, hrefnur og hnísur, en háhyrningar hafa sézt af og til. Leirutjörnin varð til, þegar vegur var lagður inn Leiruna vestan við flugvöllinn. Þar vaxa þráðnykra og hnotsörvi og marflær finnast við bakka hennar. Tjörnin er nokkuð blönduð saltvatni og fisklaus.