Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajokull

Eyjafjallajökull, virkar gosstöðvar

Eyjafjöll eru meðal hærri fjalla landsins (1666m) og nafngjafi þeirra er Vestmannaeyjar skammt undan ströndinni. Þessi fjallgarður vestur úr fjallendi Mýrdalsjökuls er innan eldvirkasta svæðis landsins og eldkeila hefur hlaðist upp, þar sem annaðhvort tvo Guðnasteina (1666m og 1580m) eða Goðastein og Guðnastein ber hæst á gígnum sunnan- og norðvestanverðum. Menn eru ekki á eitt sáttir með nafngiftirnar. Jökulhettan er talin vera hin fimmta stærsta hérlendis og ekki lengur tengd Mýrdalsjökli á Fimmvörðuhálsi. Þaðan liggur góð gönguleið upp á hæstu bungu, einnig frá Seljavöllum, Mörk, hátindaleið úr Stakkholti og upp úr Langanesi hjá Grýtutindi og upp skerin í jöklinum norðvestanverðum. Það telst ekki lengur til tíðinda, að menn skreppi akandi á fjallajeppum og snjósleðum upp á hæstu bungur landsins en þessi var eitt sinn sigraður á fólksbíl (lada).

20.03.10. Jafndægur að vori. Rétt fyrir miðnættið hófst sprungugos (suðvestur-norðaustur) á Fimmvörðuhálsinum norðanverðum, skammt vestan gönguleiðarinnar. Sprungan var u.þ.b. hálfs kílómetra löng og náði ekki undir jökul. Því var ekki óttast um flóð í kjölfarið. Íbúar svæðisins undir Eyjafjöllum og í Fljótshlíð voru fluttir brott í öryggisskyni. Þeir fengu þó að fara heim til að sinna skepnum 21.03.10. Vegum var lokað um svæðin. Almannavarnarnefndir sátu á rökstólum um framhald aðgerða. Hinn 22. marz rann hraun yfir gönguleiðina og niður í Hrunagil, þannig að goslengd ræður því, hvenær hún verður nothæf á ný. Hraunfossinn niður í Hrunagilið er rúmlega 200 metra hár og út úr því rennur hraunið í átt að Krossáraurum. Mjög slæmt veður var á Suðurlandi 22. og aðfararnótt hins 23. marz, þannig að náttúruvísindamenn komust ekki alveg að gosstöðvunum. Hinn 23. marz var rætt um aðgengi ferðamanna að gosinu. Hinn 26. marz fór hraun að flæða niður í Hvannárgil, þar sem nýr hraunfoss myndaðist, og hélt áfram að renna niður í Hvannárgil í átt að Krossáraurum í báðum tilfellum.
31.03.10. Um kl. 18:50 opnaðist gossprunga með nv-sa stefnu norðvestan nýja gígsins, nær Hvannárgili, vestan Heljarkambs. Þaðan rann meira hraun niður í gilið. Virknin í fyrsta gígnum hafði dregizt saman í tvo stróka í stað 12-15, sem fækkaði smám saman í fimm og síðan færri. Björgunarsveitir og lögregla á staðnum rýmdu svæðið við eldstöðvarnar, lét ferja göngufólk úr Þórsmörk og Goðalandi niður á Morinsheiði og skipaði síðan brottflutning þaðan. Leiðum inn í Þórsmörk var svo lokað. Daginn eftir var ferðabanni aflétt, en hættusvæði var innan fimm kílómetra radíuss frá gosstöðvunum og fólki var ekki hleypt nær þeim en í eins kílómetra fjarlægð.
07.04.10. Gos hætti á upprunalegu sprungunni og var komið niður í einn gíg (strók) í hinni yngri. Ekki var talið að hraunrennsli hefði minnkað niður í Hvannárgil, en ekkert hraun rann lengur niður í Hrunagil.
12.-13. apríl 2010. Engin merki um bráðna kviku í eldstöðinni, sem myndaðist 31. marz. Annaðhvort er nú goshlé eða goslok.
14. apríl 2010. Skömmu eftir miðnætti hófst gos í aðalgíg (dyngju) Eyjafjalla og flóð hófst, aðallega til norðurs út í Markarfljót, en einnig til suðurs, niður að Þorvaldseyri. Þjóðvegur 1 var rofinn við nýju Markarfljótsbrúna og landbrot og vegaskemmdir eru fyrirséðar vegna flóðsins í suðurátt undir Eyjafjöllum. Í vestanáttinni varð mikið öskufall í Skaftártungu, Meðallandi, Landbroti og lengra austur á bóginn. Flugstoðir gerðu áætlun um hindranir í millilandaflugi til Norður-Evrópu (Skandínavíu) vegna öskudreifingarinnar.

3. maí 2010. Síðustu daga hefur einn gígur verið virkur. Hraun hefur runnið til norðurs, undir gígjökulinn og brætt hann smám saman án stórflóða. Vatnshiti við gömlu Markarfljótsbrúna var mældur milli 11°C og 17°C.
Þýzk könnunarflugvél flaug meðfram gosmekkinum til suðausturs, allt að 60°N til að mæla öskumagn og dreifingu. Askan náði upp að 20 þúsund fetum og þéttleiki hennar var talsverður og talið var að hún gæti valdið truflunum á flugi. Flugvöllum var lokað í Skotlandi og Írlandi (4.-5. maí).
Vísindamenn telja gosið nú öflugra en í upphafi, en öskudreifningin muni ekki valda eins miklum truflunum vegna þess, að hún sé grófari.
23. maí 2010. Dregið hefur úr goskraftinum síðustu daga og síðdegis, þegar Ómar Ragnarsson flaug yfir Eyjafjallajökul, sá hann engin merki um gos. Síðar var staðfest, að gosið lægi niðri eða því væri lokið.Goslok voru 23. maí 2012.

Í Steinsholti er Innstihaus við Steinsholtsjökul, annar tveggja skriðjökla, sem falla alveg niður á jafnsléttu í norðanverðum Fjöllunum. Hinn skriðjökullinn er Gígjökull, stundum kallaður Falljökull. Hluti af Innstahaus austanverðum sprakk fram í janúar 1967 og u.þ.b. 15 milljónir rúmmetra af grjóti féllu allt að 270 m niður á jökulinn og ollu gífurlegri flóðbylgju úr Steinsholtslóni. Hún bar með sér staksteinana, björg og hnullunga, niður að Markarfljótinu og rennsli þess mældist 21.000 m³/sek niðri við brú, þegar það stóð sem hæst.

Gosið í Eyjafjallajökli árin 1821-23. Trausti Jónsson. Veðurstofa Íslands 16. apríl 2010.

Gosið í Eyjafjallajökli árið 1612 eða 1613. Trausti Jónsson og Oddur Sigurðsson. Veðurstofa Íslands 29. apríl 2010.

Eyjafjallajökli gaus  síðast 14. apríl 2010-23. maí 2012.

Myndasafn

Í grennd

Almenningar Þórsmörk
Almenningar eru uppblásinn og víða örfoka afréttur Vestur-Eyfellinga. Þeir ná frá Þröngá í suðri að  - Emstruá í norðri og Markarfljóti í vestri að M…
Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Fimmvörðuháls
Leiðin yfir Fimmvörðuháls frá Þórsmörk, Skagfjörðsskála í Langadal, Húsadal og frá skála Útivistar í yfir Fimmvörðuháls til Skóga er 22-24 km. [frá Bá…
Skógar
Austustu bæir undir Eyjafjöllum eru Eystri- og Ytri-Skógar. Þar hóf héraðsskóli Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga starfsemi 1949. Þar er sundhöll og s…
Stakkholtgjá
Stakkholt markast af Hvannárgili og Steinsholtsá og dregur nafn af kletti, sem stendur á Krossáraurum   og er kallaður Stakkur eða Stakur. Í honum er …
Steinsholt
Steinsholt er 5 km langur afréttur innan Langaness í Eyjafjöllum norðanverðum. Það afmarkast einnig af   tveimur skriðjöklum, Falljökli eða Gígjökli o…
Undir Eyjafjöllum
Eyjafjöll eru meðal hærri fjalla landsins (1666m) og nafngjafi þeirra er Vestmannaeyjar skammt undan ströndinni. Þessi fjallgarður vestur úr fjallendi…
Þórsmörk
Þórsmörk er ein af fegurstu náttúruperlum landsins, umlukin fögrum fjöllum, jöklum og jökulám. Hér með sanni segja að sjón sé sögu ríkari, því til að …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )