Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Elliðavatn

Elliðavatn
Mynd: Elliðavatn af vef www.veidikortid.is

Elliðavatn er eitt margra vatna innan höfuðborgarsvæðisins. Vatnið er 1,8 km² og í 74 m hæð yfir sjó. Í falla Bugða og Hólmsá. Þar er veiðist bleikja og urriði, sem eru oftast um 1- 2 pund. Nokkrir urriðar á bilinu 3 til 7 pund veiðast einnig á hverju sumri og nokkrir laxar á hverju ári. Afrennsli vatnsins er Elliðaárnar, sem eru 5 km langar og oft meðal 10 bestu laxveiðiáa landsins.
Veiðivon í Elliðavatni er talsverð, einkum fyrir reynda fluguveiðimenn. Veiðivonin nær einnig til Hólmsár, Suðurár og Helluvatns, en í því eru að sögn til afar vænar bleikjur. Spónn gefur lítið á þessu svæði, en beituveiðimenn geta ná góðum árangri ef þeim er vísað á réttu staðina. Þá láta menn liggja í botni með pungsökku, en nota síður flotholt eins og margur myndi þó ætla.

Upplýsingar um vatnið:
Elliðavatn er vinsælasta veiðivatn höfuðborgarsvæðisins og afar gjöfult. Vatnið er í um 73m. hæð yfir sjávarmáli og er um 1,8 km2 að flatarmáli. Mesta dýpi er rúmir 2 m. en meðaldýpi er um 1 m. Í vatnið renna Bugða og Suðurá. Hólmsá heitir áin nokkru ofar, áður en hún skiptist í Bugðu og Suðurá.

Veiðikortið:
Veiðisvæðið:
Veiðisvæðið er Elliðavatn fyrir löndum Elliðavatns og Vatnsenda, auk Hólmsár, Gudduós sem kemur úr Selvatni og Nátthagavatns, þaðan sem Hólmsá rennur. Óheimilt er að veiða í Suðurá. Ekki má veiða nær Elliðavatnsstíflu en 50 metra.

Fishing card only costs 9.900 ISK.

Veiði:
Í vatninu eru bleikja, urriði, lax og stöku sjóbirtingur. Bleikjan var ríkjandi í vatninu en síðasta áratug hefur urriðinn sótt í sig veðrið og er nú að verða algengasta fiskitegundin í vatninu. Lax og sjóbirtingur ganga í vatnið úr Elliðaánum og upp í Hólmsá. Urriðinn í vatninu
hefur verið að stækka og síðasta sumar veiddust þar allt upp í sex punda urriðar. Veiðimenn eru beðnir um að skila inn veiðiskýrslum á heimasíðu Veiðikortsins, www.veidikortid.is.

Daglegur veiðitími:
Heimilt er að veiða frá kl. 7:00 til 24:00.

Tímabil:
Veiðitímabilið hefst á sumardaginn fyrsta ár hvert og lýkur því 15. september.

Agn:
Eingöngu er leyfð veiði með flugu, maðk og spóni, en í Hólmsá má aðeins veiða á flugu! Nefna má margar góðar flugur en mest veiðist á litlar silungapúpur eins og t.d. Tailor, Mobutu, Peter Ross, Peacock, Watson‘s Fancy, svo að einhverjar séu nefndar. Þegar líður á sumarið og fiskurinn tekur að vaka eru þurrflugur góður kostur. Einnig er gott að nota litlar straumflugur fyrir urriðann, eins og t.d. Black Ghost, Mickey Finn, rauðgulan Nobbler, Dentist o.fl.

Besti veiðitíminn:
Jöfn veiði er í vatninu. Vatnið er þó sérstaklega vinsælt í maí. Mjög góð veiði er yfirleitt í maí, júní og júlí.
Bestu líkurnar til að veiða urriða eru seint á kvöldin og fyrripart dags.

Reglur:
Veiðimenn og útivistarfólk er vinsamlegast beðið að ganga vel um svæðið og skilja ekki eftir sig rusl. Jafnframt eru gestir vinsamlegast beðnir um að hirða upp rusl sem á vegi þeirra verður. Vilji menn gera að aflanum við vatnið eru þeir beðnir um að taka með sér slor og hausa. Óheimilt er að aka utan vega. Öll umferð báta á vatninu er bönnuð nema með leyfi landeigenda. Bent er á bátaleigu á Kríunesi í landi Vatnsenda. Veiðimenn skulu ekki fara inn á sumarbústaðalóðir við vatnið og virða þriggja metra reglu frá vatnsbakka þar sem það getur átt við. Vegna rannsókna á urriða á vatnasvæðinu eru veiðimenn beðnir að athuga hvort veiddir urriðar
séu mælimerktir. Merkin eru fest á baki urriðans og geta verið einföld slöngumerki eða rafeindamerki. Merkjum ber að skila til Laxfiska ehf. www.laxfiskar.is
Í Hólmsá má aðeins veiða á flugu!

Veiðivörður / umsjónarmaður á
staðnum:
Veiðikortshöfum ber að sýna veiðiverði Veiðikortið og skilríki þegar þess er óskað. Þegar handhafi Veiðikortsins er á bíl er hann beðinn um að hafa Veiðikortið sýnilegt við framrúðu bílsins.

Elliðavatn meira:

Elliðavatn er á norðausturenda sprungusvæðis í Trölladyngjukerfinu og rekja má aldur þess til síðasta   hlýskeðs ísaldar. Það er í sama flokki og Þingvallavatn og Mývatn. Þessi stöðuvötn eru á hraunsvæðum og hraunrennsli hefur breytt útliti þeirra allra. Umhvefis þau eru mikil lindasvæði, sem valda því, að úrrrennsli þeirra eru mun vatnsmeiri en aðrennsli á yfirborði. Á botni þeirra allra eru þykk lög kísilgúrs og þau eru öll miðlunarlón fyrir vatnsvirkjanir. Þau eru einnig öll í sigdældum sprungusvæða. Efstu, stöðugu upptök Elliðaánna eru við Selvatn og í Lækjarbotnum við Nátthagavatn.

Ár og lækir, sem renna í Elliðavatn eru Bugða, Suðurá um Helluvatn, lækur úr Kirkjuhólmatjörn og Myllulækur úr Myllulækjartjörn. Suðurá rann fyrrum gegnum Hrauntúnstjörn en var beint fram hjá henni. Meðalrennsli Elliðaánna er 5½ teningsmetri á sekúndu en minnsta rennsli getur farið niður fyrir 1 m³/sek. Árnar geta vaxið stórum eins og gerðist í febrúar 1968, þegar það var áætlað allt að 220 m³/sek eftir að skarð myndaðist í Elliðavatnsstífluna. Í febrúar 1982 urðu tvö stórflóð í ánum, sem voru í rauninni stærri en 1968, ef stíflubresturinn er ekki talinn með.

Elliðavatn skilar mun minna vatnsmagni til sjávar en úrkoman á svæði þess gefur til kynna, því að mikið magn þess hverfur í jörð, rennur undir Húsfellsbruna og birtist líklega í lindum við sjó á svæðinu milli Hvaleyrarholts og Straums

Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Fram að þeim tíma rann Bugða um engjarnar og sameinaðist Dimmu, sem var afrennsli Elliðavatns, sem var þá helmingi minna en það er nú. Neðan ármóta þessara þveggja áa fékk áin nafnið Elliðaár. Hvarf Elliðavatnsengis olli miklum breytingum í fuglalífi við vatnið.

Hólmsá, sem heitir Bugða síðasta spölinn, rennur í það auk Suðurár úr Silungapolli. Tanginn Þingnes, sem er að hluta í kafi eftir að stíflan var gerð fyrir 1924-26.

Þar fundust rústir, sem staðfesta líklega, að Kjalarnesþing hafi verið háð þar um hríð a.m.k. Þar var stofnun Alþingis líklega undirbúin. Jónas Hallgrímsson rannsakaði rústirnar og þjóðminjasafn árið 1981. Benedikt Sveinsson eignaðist jörðina árið 1815 og Einar Ben. fæddist þar 1864. Fyrsta vísan hans er sögð hafa orðið til þar þegar hann var 7-9ára og orti um vinnumann:

Jósep er og hundur hans
hungraðir að vana,
seggur þessi sunnanlands
segist kominn að bana.

Síðan gekk jörðin kaupum og sölum og árin 1923-28 eignaðist Rafveita Reykjavíkur vatnið og byggði miðlunarstíflu, sem hækkaði vatnsborðið verulega. Búskap var brátt hætt á Elliðavatni og Skógræktarfél. Rvk. fékk jörðina 1963, einkum vegna umsjár Heiðmerkur, en verulegur hluti hennar er í landi jarðarinnar. . Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og margir aðrir en Jónas Hallgrímsson hafa rannsakað staðinn. Þingstaðurinn var ekki á sjálfu nesinu, sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan þess og þar hafa fornleifarannsóknir farið fram með góðum árangri.

Brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingunum í Reykjavík upp úr 1750. Hann þurfti að tryggja næga ull til vinnslu, bæði af íslenzku fé og erlendu til blöndunar. Elliðavatn varð fyrir valinu sem sauðfjárbú fyrir Innréttingarnar vegna beitarinnar í skóglendi Heiðmerkur og nágrennis. Hrútar af enskum stofni voru fluttir inn til kynbóta og sænskur baron, Hastfer að nafni, var fenginn til að stýra þeim fyrsta kastið. Það er ekki ljóst, hvers vegna þessar kynbótatilraunir voru fluttar að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni 1757.

Þar var reist stórt fjárhús og „mikil stofa”, þótt þessara mannvirkja sjái ekki lengur stað. Fjárhúsið var sagt vera vandaðra en flestar kirkjur landsins og afþiljað. Þetta afburðafjárhús dugði ekki til þess að bægja óláninu frá. Veiki komu upp í fénu, fjárkláðinn, sem breiddist óðfluga út og olli gífurlegum búsifjum. Á árunum milli 1760 og 1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360.000 í 140.000. Þetta var vafalaust mesta efnahagsáfall, sem Íslendingar hafa orðið fyrir fyrr og síðar, því að þeir voru svo háðir sauðfjárbúskap á þessum tíma. Sauðfjárræktinni og kynbótatilraununum lauk með þessu á Elliðavatni. Búið var formlega lagt niður 1764.

Einar Benediktsson skáld fæddist að Elliðavatni 31. október 1864. Það er gaman að hugsa til þjóðskáldsins þegar menn veiða í vatninu.

Eitt bros – getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Einar Benediktsson

Myndasafn

Í grennd

Elliðaár
Laxveiði á Höfuðborgarsvæðinu Þær eiga upptök sín í Elliðavatni, en efstu drög eru mun ofar, í vötnum fyrir ofan og neðan Silungapoll og nær ríki lax…
Elliðakot
1942 brann bærinn Elliðakot sem er skammt frá Gunnarsholma  til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tóks…
Hólmsá
Gudduós er afrennsli Selvatns, sem er upphaf Hólmsár og Nátthagavatn lítið vatn norðan Geirlands,  afrennsli þess sameinast Hólmsá skammt ofan við Gun…
Nátthagavatn
Í örnefnalýsingu fyrir Elliðakot eftir Tryggva Einarsson frá Miðdal (Meðal systkina hans var Guðmundur frá Miðdal)   segir að þarna hafi Fossvallaá ru…
Reykjavík
Reykjavík Reykjavík er höfuðborg Íslands með u.þ.b. 38,1%% af íbúum landsins. Eins og í öðrum höfuðborgum sitja stjórnvöld landsins í Reykjavík og fl…
Veiði Höfuðborgarsvæði
Stangveiði á Höfuðborgarsvæðinu. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og -vötn.  Laxveiði Höfuðborgarsvæðinu …
Veiðikortið
Veiðikortið 2021 til sölu.

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )