Ásbyrgi er stórkostleg náttúrusmíð með allt að 100 m háum hamraþiljum, sem hækka eftir því, sem innar kemur í gljúfrið. Innst er Botnstjörn með mikilli grózku allt um kring. Það er 3,5 km langt og um 1,1 km breitt. Í miðju þess er standberg, Eyjan, sem er allt að 250 m breið. Byrgið er skógi vaxið, einkum birki og víðir auk reynis og nokkur þúsund barrtré voru gróðursett þar og dafna vel. Fýllinn verpir í þvernhíptum hömrunum.
Talið er, að Ásbyrgi hafi myndazt við tvö hamfarahlaup, annað fyrir 8-10 þúsund árum en hið síðara fyrir u.þ.b. 3 þúsund árum. Síðan hefur Jökla fært sig til austurs. Þjóðsagan segir, að hinn áttfætti hestur Óðins, Sleipnir, hafi stigið þar niður fæti, þegar goðið var á yfirreið. Ásbyrgi er hluti þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum, nú Vatnajökulsþjóðgarðs, en var áður í umsjá Skógræktar ríkisins.
Vegur liggur alla leið inn í botn Ásbyrgis. Upplýsingamiðstöðin í Asbyrgi var opnuð 19. apríl 2007. Einar Benediktsson orti fallegt kvæði um það, „Sumarmorgunn í Ásbyrgi”.
Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls, hinn 7. júní 2008, var opnuð gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi.
Upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi.
Sími.:
Email: