Í Áfangagil eru réttir, þar sem árlega er réttað fé sem gengur á Landmannaafrétt. Gengið er út með öldunni fram að gömlum fjárbyrgjum í Sölvahrauni. Þaðan er gengið að hraunjaðri Skólkvíahraunsins frá 1970. Síðan liggur leið með Sauðfellsöldu að eystri upptökum Ytri-Rangár og meðfram ánni. Þar sjást Fossabrekkur við Rangá mjög vel. Þaðan er farið að kjafti Ófærugils, yfir brú og haldið svo áfram sem leið liggur að Rjúpnavöllum. Þar er nýtt skálasvæði í Landi Merkihvols, sem er efsta jörð í Landsveit.