Aðalvík er á Hornströndum, næst norðan við Ísafjarðardjúp, milli Rits og Straumness. Hún er 6-7 km breið en lítið eitt lengri. Fjöllin á báða bóga eru sæbrött en nokkurt undirlendi er fyrir botni víkurinnar með sendinni strönd. Það er klofið af fjallarönum, sem skipta því í þrennt og er torvelt að fara þar á milli á landi. Yzt að sunnan er lítill dalur, Skáladalur. Þar var fyrrum útræði og verstöð. Upp af Aðalvík ganga fjórir dalir, Syðstur er Staðardalur. Fyrir neðan hann er Sæból. Þar var vísir til þorps með um 70 íbúum, þegar flest var. Inni í dalnum var prestssetrið Staður.
Þá er Þverdalur og var samnefndur bær út af honum Síðan er Miðvík. Þar voru tveir bæir og nyrzt er Stakkadalur, áður með nokkrum bæjum. Sandur mikill er með sjónum, sem nú er mjög tekinn að gróa. Sunnan að dalnum heitir Kleifarháls. Undir honum heita Teigar. þar er sandorpið sísnævi við sjóinn og tóku skip þar fyrrum ís til að kæla með fisk.
Nyrst við víkurbotninn eru Látrar. þar reis upp þorp í byrjun aldarinnar og voru íbúar þar 80-100, þegar flest var. Þar er skipbrotsmannaskýli. Stutt er og greiðfært þaðan yfir í Rekavík. Sæból var byggð við vestanverða víkina, þar sem bjuggu allt að 80 manns. Enn þá standa allmörg hús í þessum yfirgefnu byggðum, sem afkomendur íbúanna halda við og nota á sumrin. Lendingar eru erfiðar í aðalvík, enda fyrir opnu hafi en skammt var til fiskimiða. Víða er þar grösugt og góðar engjar en mjög hefur öllum gróðri farið þar fram síðan byggðin eyddist. Aðalvík er nú öll í eyði og hefur svo verið síðan 1952.
Gönguleiðir:
Niður í Aðalvík eru fyrst gengnar smábrekkur en síðan er breiður hjalli, Fljótshjalli. Á honum eru tjarnir og milli þeirra vörðuð leið. Ein tjarnanna er nokkru stærri en hinar og nefnist Drekavatn, því í hólma einum þar á að hafa búið dreki. Af hjallanum er vörðuð gata, sem þó er oftast undir snjó, og þaðan áfram niður hjallana unz kemur fram á horn upp af hálsinum milli Reykjavíkur og Aðalvíkur. Niður af horninu skyldu menn fara Aðalvíkurmegin og er svo komið niður á Hálsa.