Viðey í Kollafirði
Viðey er stærsta eyjan í Kollafirði, 1,7 km². Hæst liggur hún á Heljarkinn, 32 m.y.s. Hún er í tveimur hlutum, sem eru tengdir með eiði. Norðvesturhlutinn er minni og er nefndur Vesturey. Stærri hlutinn með kirkjunni og Viðeyjarstofu heitir Heimaey og suðausturhlutinn heitir Austurey. Tiltölulega snemma á ísöld, fyrir u.þ.b. 2 milljónum ára var Viðeyjareldstöðin virk og geysimikil askja hafði þá myndast. Að eldvirkninni lokinni hófst vatns-, jökul- og vindveðrun svæðisins, þar til smáhæðótt landslag varð eftir, þegar ísaldarjökullinn hopaði. Sjávarborð var um 40 – 50 m hærra en nú, þegar jökullinn bráðnaði. Þá var Viðey undir sjávarborði en land fór smám saman að rísa fyrir 9000 – 10000 árum og eyjan kom í ljós.
Elztu berglög í Viðey eru lagskipt móbergslög með bólstrabergi og djúpbergi. Grunnur Eiðisins og suðurhluta eyjarinnar, austan Heljarkinnar, er móberg. Milli Heljarkinnar og Eiðisins gabbróinnskot og víða er að sjá fallegt blágrýtisstuðlaberg. Vesturey og austurströnd Heimaeyjar eru úr grágrýti, sem er líklega 200.000 ára. Eyjan er öll gróin og að hluta mýrlend. Þar hafa fundizt 156 tegundir æðri plantna. Fuglalíf er allfjölbreytt. Taldir hafa verið allt að 30 tegundir varpfugla. Algengustu fuglarnir eru æðarfugl og sílamávur. Hrafn verpir í eyjunni.
Fornleifauppgröftur hefur leitt í ljós, að eyjan var í byggð á 10. öld. Á 12. öld mun hafa verið byggð kirkja og árið 1225 var stofnað Ágústínaklaustur. Helztu hvatamenn klausturstofnunar voru höfðingjarnir Þorvaldur Gissurarson og Snorri Sturluson. Klaustrið stóð til 1539, þegar fulltrúar konungs frá Bessastöðum rændu það og lýstu eigur þess konungseign. Jón Arason, Hólabiskup, síðasti katólski biskup landsins, fór í herför suður og lagði m.a. Viðey undir sig, endurreisti klaustrið og lét byggja virki í kringum það. Að honum látnum sama ár varð siðbótinni komið á um allt land og klausturlíf var endanlega lagt niður.
Viðey varð að annexíu frá Bessastöðum og síðar aðsetur Skúla Magnússonar, landfógeta, sem lét byggja Viðeyjarstofu. Hún er fyrsta steinhús landsins og var fullbyggð árið 1755. Kirkjan var vígð árið 1774 og er hin næstelzta landsins, sem enn stendur. Kirkjugarðurinn er vestan og norðan við kirkjuna. Þar hvíla margir þjóðkunnir menn, s.s. Ólafur Stephensen, stiftamtmaður, sonur hans, Magnús Stephensen, konferensráð, Gunnar Gunnarsson, skáld, Franciska Gunnarson, kona hans og Gunnar Gunnarsson, listmálari, sonur þeirra.
Skúli Magnússon var fyrsti Íslendingurinn til að taka við embætti landfógega. Hann barðist ötullega fyrir framþróun í landbúnaði, verzlun, iðnaði og fiskveiðum á þilfarsbátum. Verksmiðjurnar, sem hann lét reisa, mynduðu gamla miðbæinn. Hann er oft kallaður faðir Reykjavíkur fyrir bragðið. Ólafur Stephensen (1731-1812) varð fyrstur Íslendinga stiftamtmaður. Hann settist að í Viðey og næstu tíu árin var þar virðulegasti embættisbústaður landsins. Ólafur barðist fyrir framförum í landbúnaði og menntun landsmanna. Sonur hans, Magnús Stephensen (1762-1833), forseti landsyfirréttar. Hann keypti Viðey árið 1817 og stofnaði prentsmiðju þar. Hún var starfrækt á árunum 1819-1844 og samtímis var Viðey mikilvægasta menningarsetur landsins. Magnús var forgöngumaður upplýsingarstefnunnar og formaður samtaka, sem gáfu út fræðslurit fyrir almenning. Hann barðist einnig fyrir frjálsri verzlun og mannúðlegri lagasetningu.
Í upphafi 20. aldar var fyrsta höfn fyrir millilandaskip byggð í Viðey og þar reis þorp með u.þ.b. 100 íbúum, sem fengu vinnu við fiskveiðar og vinnslu. Eftir að Reykjavíkurhöfn var fullbyggð og bærinn byrjaði að þróast of dafna sótti Viðeyjarfólkið í auknum mæli vinnu þangað. Síðasti íbúi Viðeyjar yfirgaf eyna árið 1943. Búið var í Viðeyjarstofu til 1959. Reykjavíkurborg lét gera hana og kirkjuna upp og árið 1988 fékk Viðeyjarstofa nýtt hlutverk sem veitingastaður. Þjóðminjasafnið lét gera byggingarnar upp á árunum 1967-79 og 1987 undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar arkitekts, og árið 1986-88 var bætt við byggingu neðanjarðar. Í nýja hlutanum eru rými tengd núverandi nýtingu hússins til fundar- og ráðstefnuhalds.
Viðeyjarferjan hefur samastað í Klettsvör í Sundahöfn. Tvær megingönguleiðir eru um Viðey og báðar þess virði að njóta þeirra. Önnur liggur norðan Viðeyjarstofu í suðausturátt að Sundbakka. Síðan til hægri að Þórsnesi og áfram að Kríusandi. Á bakaleiðinni borgar sig að ganga yfir Kvennagönguhóla til að komast að réttinni og litla hellinum Paradís. Síðan er gengið upp á Heljarkinn, þar sem minnismerki Skúla Magnússonar er og til baka að Viðeyjarstofu. Hin gönguleiðin liggur frá Viðeyjarstofu í vesturátt yfir Eiðið, þar sem eru þrjár litlar tjarnir, og áfram yfir Vesturey með umhverfislistaverkunum Áföngum eftir R. Serra. Leiðin til baka liggur fram hjá Viðeyjarnausti og yfir Sjónarhól. Bak við Viðeyjarstofu eru salerni. Hestaleiga var starfrækt í eyjunni á sumrin.
Friðarsúlan
Hinn 9. oktober 2007 komu Yoko Ono og Sean Lennon til landsins til að vígja „friðarsúlu” til minningar um hörmulegt morð Johns Lennons 8. desember 1980 (fæddur 9. okt. 1940). Friðarsúlan er leysigeisli, sem er áberandi meðan hann logar á þessu tímabili og hann verður tendraður við tilefni, sem hæfa málstað friðar í heiminum á öðrum árstímum að ákvörðun fjölskyldunnar.
Hinn 8. desember var ákveðið í samráði við Yoko að kveikt skyldi aftur á súlunni við vetrarsólstöður, 21. desember 2007, og hún látin geisla til miðnættis á gamlárskvöld.
(Mynd: TetsuRo Hamada)