Vesturöræfi eru vestan Snæfells, austan Jökulsár á Brú og sunnan Hrafnkelsdals. Að sunnan markast þau af Vatnajökli. Þau eru allvel gróin og sums staðar mýrlend og að mestu í 600 – 700 m hæð yfir sjó. Þau státa af því, að vera meðal mestu hreindýraslóða landsins og austast á þeim, við rætur Snæfells austanverðs er Snæfellsskáli Ferðafélagsins. Tvær ökuleiðir liggja að þeim, upp úr Hrafnkelsdal og Fljótsdal. Fljótsdalsleiðin var lögð vegna rannsókna á svæðinu vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda og er sú leið þægilegri en leiðin upp úr Hrafnkelsdal.