Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Vatnsfjörður

Fjörður, um 9 km langur, vestan Hjarðarness. Vatnsfjörður er breiður í mynni og þrengist innar. Í miðju  fjarðarmynninu er Engey, allhá, varp- og engjaland frá Brjánslæk. Inn af firðinum gengur Vatnsdalur. Vatnsfjörður er frægastur fyrir það, að þar hlaut Ísland nafngift sína.

Flóki Vilgerðarson gekk veturinn eftir komu sína hingað til lands upp á hátt fjall, ef til vill Lónfell (752m). Sá hann þá fjörð fullan af hafís og gaf landinu nafnið Ísland. Minnismerki um Flóka er í Vatnsfirði í grennd við Flókalund. Samkvæmt Landnámu kom Flóki öðru sinni til Íslands og settist að í Flókadal sunnan Haganesvíkur í Skagafirði. Hann er sagður heygður að Stóru-Reykjum, þar sem heitir Flókasteinn.

Mjög víðsýnt er af Lónfelli. Sér af því norður í Ísafjörð til Drangajökuls og Glámu og meginhluta fjalla kringum Breiðafjörð. Þangað er tæpur stundar gangur í norðlægt austur af veginum í Helluskarði, þar sem Suðurfjarðavegur frá Bíldudal kemur á Vestfjarðaleið við Hornatær.

Vatnsfjörður var gerður að friðlandi með lögum árið 1975. Friðlandið er í landi höfuðbólsins Brjánslækjar og eyðijarða sem liggja undir því.

Í Vatnsfirði er Flókalundur, gisti- og veitingastaður hjá brúnni á Pennu, innarlega í firðinum. Vegalengdin frá Reykjavík er um 365 km um Hvalfjarðargöng og Bröttubrekku.

Penna rennur um Penningsdal, að mestu í þröngu gljúfri, niður í Vatnsfjörð. Hún þótti oft erfið og hættuleg yfirferðar áður en brúin var byggð. Sagt er, að 18 manns hafi drukknað í henni.

Myndasafn

Í grennd

Barðaströnd
Barðaströnd er heiti á strandlengju á sunnanverðum Vestfjörðum að Breiðafirði á milli Vatnsfjarðar og Bjarkalundar. Flóki Vilgerðarson nam þar land…
Brjánslækur
Fornt höfuðból, kirkjustaður og löngum prestsetur við mynni Vatnsfjarðar á Barðaströnd. Þar var kirkja   helguð heilögum Gregoríusi í katólskum sið. B…
Sögustaðir Vestfjörðum
Álftafjörður Álftamýri Arnarfjörður Arnarnes Æðey Barmar Bjarkarlundur Borgarland Botn er í Bo…
Tjaldstæðið Flókalundur
Vatnsfjörður er þekktur úr sögunni vegna landgöngu Hrafna-Flóka, sem gaf landinu nafnið, sem festist við það.  Skammt ofan við Brjánslæk er Surtarbran…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )