Tindastóll (995m) er u.þ.b. 18 km langt og áberandi fjall norðan Sauðárkróks við vestanverðan Skagafjörð. Fyrrum kölluðu Laxdælir það Eilífsfjall og uppi á því er tjörn sunnan Einhyrningsdals.
Þjóðsagan segir, að óskasteinar fljóti upp í tjörninni hverja Jónsmessunótt, en ekki eru allir, sem leggja leið sína þangað jafnheppnir. Sagt er að stúlka ein hafi fundið einn slíkan án þess að gera sér grein fyrir því. Þar sem hún stóð þarna við tjörninga með steininn í hendinni, varð henni á að óska þess, að hún væri kominn í dýrlegustu veizlu í heimi. Hún stóð skyndilega í fagurri höll og til hennar kom maður, sem rétti henni gullbikar. Hún tók við honum en var svo brugðið, að hún óskaði, að hún væri kominn til baka á sama stað. Hún fleygði steininum út í tjörnina til að hann villti ekki um fyrir henni á ný. Bikarinn afhenti hún prestinum og fékk þrjár jarðir í Skagafirði að launum.
Flestir, sem leggja á sig göngu upp á Tindastól, eru ekki endilega að leita að óskasteinum, heldur að sameina útiveru og frábært útsýni af fjallinu í góðu veðri. Gangan á fjallið er nokkuð krefjandi. Til að komast að góðri uppgöngu að sunnanverðu er ekið af vegi 745 vestan við bæinn Skarð upp með Hraksíðuá að norðan. Gangan hefst við Skógarhvamm eftir stikum að vörðu á Einhyrningi suðaustast á fjallinu (795m). Gönguvegalendin er u.þ.b. 6 km og hækkunin 650 m. Göngutíminn gæti verið nærri 3½ klst.
Gönguskörð eru breiður dalur norðvestan Sauðárkróks, milli Tindastóls og Molduxa (706m). Hann klofnar í þrjár dældir. Hin nyrzta liggur til Laxárdals. Miðdældin liggur til Kálfárdals og hin syðsta til Víðidals. Gamlar og nýjar leiðir liggja um þær allar. Gönguskarðsá (virkjuð) rennur til Sauðárkróks.
SKÍÐASVÆÐI TINDASTÓLS
Skíðasvæði Tindastóls býður upp á frábæra aðstöðu til skíðaiðkunar, hvort sem það eru skíði eða snjóbretti.