Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Þeistareykir

Þeistareykir í Suður-Þingeyjarsýslu

Eyðibýlið Þeistareykir tilheyrir Aðaldalshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er u.þ.b. 10 km suðaustan  Sæluhúsmúla á Reykjaheiði. Þangað liggur ruddur vegur og þaðan er akfært suður á Hólssandsveg. Það er grösugt í kringum bæjarrústirnar, þótt þær séu í 344 m hæð yfir sjó. Nærri 19 km leið var til kirkju að Grenjaðarstað fyrir ábúendur þar til bærinn fór endanlega í eyði 1874.

Nú stendur þar ágætur skáli leitarmanna. Þarna er öflugt háhitasvæði, sem fyrirhugað er að virkja í framtíðinni. Framkvæmdir við borun hófust sumarið 2002. Þar var talsvert unnið af brennisteini, sem var hreinsaður á Húsavík og fluttur til Kaupmannahafnar.

Sagnir segja frá heimsókn 12 hvítabjarna, sem drápu allt heimafólkið. Bóndasonurinn var að heiman, þegar þessi atburður varð. Hann kom að brotnum bænum og fann bara handlegg og brjóst af móður sinni. Hann elti bjarndýrin uppi og drap þau öll. Einnig er talað um draug, mórauðan, afturgenginn hund, sem var hin mesta ófreskja.

Þeistareykjabunga (564m) lætur tiltölulega lítið yfir sér, enda hallalítil. Gígur hennar er 500 – 600 m langur og 50 – 60 m breiður, dýpstur 40 m. Mikil hraun runnu þaðan og frá Stóra-Víti norður um Kelduhverfi. Stóra- og Litla-Víti eru sunnan Þeistareykjabungu.

Sumarið 2002 voru hafnar tilraunaboranir á háhitasvæðinu í Þeistareykjum og árið 2005 var samþykkt að stefna að nýtingu háhitasvæðanna þar og í Öxarfirði til raforkuframleiðslu, e.t.v. í þeim tilgangi að laða að stóriðju. Þeistareykjastöð var fyrsta jarðvarmavirkjunin sem Landsvirkjun reisti frá grunni. Stöðin var gangsett 17. nóvember árið 2017, þegar fyrri 45 megavatta vélasamstæðan var ræst, en 18. apríl árið eftir var sú seinni sett í gang. Við byggingu stöðvarinnar var meginmarkmiðið að reisa hagkvæma og áreiðanlega stöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru.

Stóra-Víti (551m) er dyngja sunnan Þeistareykjabungu með 1°-2° halla. Þvermál kringlótts gígsins er 800-1000 m og dýpi u.þ.b. 100 m. Hann er hrikalegur og víða með hamraveggjum. Rétt fyrir sunnan hann er Litla-Víti, 100-150 m í þvermál með 30-40 m, þverhnípta gíghamra. Hryggir úr stórgrýti eru á börmum beggja gíganna, svo þeir eru áberandi úr fjarlægð. Stóra-Víti hefur skapað stóra hraunfláka í átt að Kelduhverfi og til austurs að Jökulsá á Fjöllum. Ásbyrgi er sorfið í jaðra þeirra. Gosin eru rakin til Búðaskeiðs fyrir 10-11 þúsund árum.

Bæklingar um gönguleiðir í Kelduhverfi, þjóðgarðinum og á Melrakkasléttu fást í aðalmiðstöð þjóðgarðsins í Ásbyrgi.

Myndasafn

Í grennd

Húsavík
Húsavík er kaupstaður við innanverðan Skjálfanda að austanverðu. Fiskvinnsla og útgerð hefur verið ein  af stoðum atvinnulífisins ásamt með verslun og…
Hvítabjörn, Ísbjörn
Hvítabjörn eða ísbjörn (Ursus maritimus) er fremur sjaldgæfur gestur á Íslandi núorðið en fyrrum, þegar   loftslag fór kólnandi á síðmiðöldum og allt …
Reykjaheiði
Heiðin milli Reykjahverfis og Kelduhverfis, sunnan Gæsafjalla norður að Grísafjöllum er kölluð Reykjaheiði. Margir vilja þó aðeins nota þetta nafn yfi…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…
Þeistareykjastöð
Þeistareykjastöð Heimamenn áttu frumkvæði að nýtingu svæðisins, en saga Þeistareykja nær allt til ársins 1999. Það var svo árið 2005 sem Landsvirkjun…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )