Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hvítabjörn, Ísbjörn

Ísbjörn

Hvítabjörn eða ísbjörn (Ursus maritimus) er fremur sjaldgæfur gestur á Íslandi núorðið en fyrrum, þegar   loftslag fór kólnandi á síðmiðöldum og allt fram yfir aldamótin 1900 voru ísár tíðari og þar með heimsóknir þessara stærstu bjarndýra jarðar.

Hvítabjörninn er hálfgert lagardýr, sem heldur sig aðallega á rekís á svæðunum í kringum norðurheimskautið. Fyrrum var hann eftirsóttur meðal sportveiðimanna og inúítar veiddu hann til matar og vegna skjólgóðs feldsins. Stöðugt dró úr fjölda þessara dýra, þar til þau voru að mestu friðuð árið 1973. Inúítar, sem lifa enn þá í samfélögum veiðimanna, fá þó að veiða fáein dýr ár hvert. Flest dýra þessarar tegundar, sem ollu usla og mannskaða hérlendis, voru drepin og nokkur söfn hérlendis eiga uppstoppaða hvítabirni. Íslendingasögurnar geta um hvítabirni, sem voru færðir konungum að gjöf.

Feldur hvítabjarnarins er næstum hvítur og hann fellur því vel að hvítu umhverfinu. Hann er skjótur á fæti og fer víða um. Hann er flugsyndur og finnst oft tugi kílómetra frá landi eða nálægustu ísflekum. Aðalbráð hans er selir, sem hann eltir alla leið suður til St. Lawrence-flóa í Kananda og að ósum Amúrárinnar í Rússlandi. Hann étur líka fisk, þang, gras, fugla, hreindýr og rekna hvali.

Yfirleitt er karldýrið stærra en kvendýrið og vegur 410-720 kg. Hæð þess á herðakamb verður allt að 1,6 m og heildarlengdin 2,2-2,5 m. Dindillinn verður 7-12 sm langur. Þófar dýrsins eru loðnir og vel einangraðir. Höfuðið er tiltölulega lítið miðað við líkamsstærð og hálsinn fremur langur. Yfirleitt er hvítabjörninn styggur en bregzt óhikað til varnar, sé honum ógnað.

Meðgangan tekur 240-270 daga. Húnarnir fæðast á veturna og fjöldi þeirra er allt frá einum upp í fjóra.

Í maí og júní 2008 stigu tvö bjarndýr á land á Skaga. Hið fyrra fannst á Þverárfjalli og var skotið þar. Hið síðara að Hrauni á Skaga. Ærnu fé var kostað til að láta flytja búr og sérfræðing í deyfingu villtra dýra frá Danmörku. Allt kom fyrir ekki og nauðsynlegt reyndist að fella þetta dýr líka. Dýrin voru stoppuð upp og prýða nú söfn á Sauðárkróki og Blönduósi.

Hinn 27. janúar 2010 (kl. 13:30) urðu íbúar Sævarlands (Norðvesturlandi) varir við unga og smávaxna ísbirnu úti á bjargi. Rannsókn leiddi í ljós, að hún var 4 ára og vel á sig komin. Það gekk á með éljum, svo að dýrið hvarf sjónum manna af og til. Það var talið nauðsynlegt að vinna á dýrinu hið fyrsta og veiðimenn komu fljótt á staðinn. Þeir biðu smátíma eftir leyfi umhverfisráðnuneytisns til að fella birnuna. Leyfið fékkst, en bóndinn, sem skaut birnuna kl. 15;40 hjá eyðibýlinu Óslandi við mynni Sandár, sex km austan Sævarlands, var annar tveggja bænda, sem fengu ekki upplýsingar um ísbjörninn og aðgerðirnar. Hann var að sinna fé sínu með veiðiriffil um öxl, þegar hann sá birnuna, sem ærði féð, og skaut hana umsvifalaust tveimur skotum. Líklegt þótti, að birnan hefði verið í fylgd móður sinnar og því var leitað að fleiri dýrum daginn eftir. Leiddar eru líkur að fjölgun heimsókna ísbjarna vegna röskunar búsetuskilyrða þeirra á norðurslóðum og æ fleiri dýr verði að hafast við á rekís til að finna nægilegt æti. Þegar ísinn bráðnar eiga dýrin ekki annars kost en að reyna að synda til næsta lands. Sundhraði þeirra er áætlaður fimm km/klst.

Hinn 2. maí 2011, kl. 09:00 tilkynnti skipstjóri hrognkelsabáts um ísbjörn, sem hvarf í þoku uppi í hlíðum Hælavíkur. Ekki var vitað um ferðamenn á svæðinu, en komið var í veg fyrir fyrirhugaða ferð þennan daginn. Viðbragðsáætlun var strax virkjuð og dýrið, sem hafði skokkað alla leið til Rekavíkur, var skotið samdægurs úr þyrlu landhelgisgæzlunnar. Þetta var líklega fjögurra ára birna, sem vóg um 150 kíló.

Hinn 27. janúar 2010 (kl. 13:30) urðu íbúar Sævarlands varir við unga og smávaxna ísbirnu úti á bjargi. Rannsókn leiddi í ljós, að hún var 4 ára og vel á sig komin. Það gekk á með éljum, svo að dýrið hvarf sjónum manna af og til. Það var talið nauðsynlegt að vinna á dýrinu hið fyrsta og veiðimenn komu fljótt á staðinn. Þeir biðu smátíma eftir leyfi umhverfisráðnuneytisns til að fella birnuna. Leyfið fékkst.

Grímsey:
Hvítabirnir fylgja gjarnan hafísnum og er talið að um 27 dýr hafi gengið á land á Islandi eftir áramótin 1918.
1969 gekk Ísbjörn á land þar og var skotinn, er nú til sýnis á Safnahúsinu á Húsavík

Gamlar heimildir:

Þeistareykir:
Sagnir segja frá heimsókn 12 hvítabjarna, sem drápu allt heimafólkið. Bóndasonurinn var að heiman, þegar þessi atburður varð. Hann kom að brotnum bænum og fann bara handlegg og brjóst af móður sinni. Hann elti bjarndýrin uppi og drap þau öll. Einnig er talað um draug, mórauðan, afturgenginn hund, sem var hin mesta ófreskja.

Hraunhafnartangi á Melrakkasléttu:
Hraunhafnar er getið í Gunnlaugs sögu, Reykdæla sögu og Íslendingabók. Landnáma segir frá Arngeiri, sem nam Sléttu milli Hávararlóns og Sveinungsvíkur. Þorgils og Oddur voru synir hans og dóttirin Þuríður. Arngeir og Þorgils fóru eitt sinn í smalamennsku og urðu fyrir árás bjarndýrs, sem drap þá báða. Oddur kom að vígvellinum, drap björninn og flutti hann heim og át. Hann varð hamrammur af átinu og erfiður viðureignar. Hann gekk frá Hraunhöfn að kvöldi og kom morguninn eftir í Þjórsárdal til að liðsinna systur sinni á Steinastöðum, sem Þjórsárdælingar ætluðu að grýta í hel fyrir tröllskap.

Hælavík er vestan bjargsins og handan hennar er Skálakambur. Hún er að mestu hömrum girt og lítið undirlendi. Þar var búið fram undir miðja 20. öldina.
Samkvæmt annálum gekk ísbjörn þar á land árið 1321 og reif í sig 8 manns.

Myndasafn

Í grennd

Íslensku Húsdýrin
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…
Skagi
Skagi er milli Húnaflóa og Skagafjarðar, u.þ.b. 50 km langur og 30 km breiður. Nyrzt er Skagaheiði, fremur láglend, en sunnar rísa há fjöll og dalir, …
Villt spendýr
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )