Svínafell í Öræfum
Svínafell í Öræfum var eitthvert mesta höfuðból Austurlands á fyrri tíð.
Njálssaga segir okkur frá búsetu Flosa Þórðarsonar þar eftir árið 1000. Hildigunnur, kona Höskuldar Hvítanesgoða, var bróðurdóttir hans og því hvíldi hefndarskylda á Flosa eftir að Njálssynir höfðu drepið Höskuld, uppeldisbróður þeirra. Afleiðingin varð Njálsbrenna á Bergþórshvoli.
Ormur Ormsson (1241-1270), sem bjó á Svínafelli, varð síðastur allra íslenzkra höfðingja að gerast handgenginn Noregskonungi. Hann og Hrafn Oddson fengu forráð yfir öllu landinu en Ormur drukknaði við Noregsstrendur áður en til þess kæmi.
Árni Þorláksson (1237-1298), biskup í Skálholti, fæddist að Svínafelli. Hann fékk viðurnefnið Staða-Árni.
Veðursæld er að jafnaði mikil á þessu svæði en sviptivindar úr fjallaskörðunum þeyta öllu lauslegu á loft og tjón á mannvirkjum og fólki hafa orðið í aldanna rás. Bærinn er í grennd við Svínafellsjökul og aldrei að vita, hvenær náttúruöflin þrýsta honum yfir jökulöldurnar við jaðarinn og hæðina milli hans og bæjar. Byggð var sundlaug við bæinn og sorp sveitarinnar er notað til upphitunar. Á Svínafelli er einnig vinsælt tjaldstæði.