Staðarkirkja er í Prestbakkaprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Staður er bær, kirkjustaður, gisti- og í Staðarhreppi við austanverðar leirur Hrútafjarðar. Katólskar kirkjur þar voru helgaðar Maríu guðsmóður.
Timburkirkjan með turni og sönglofti, sem nú stendur þar, var byggð 1884. Hún tekur um 80 manns í sæti. Sigurður Sigurðsson, faðir Stefáns skálds frá Hvítadal, var yfirsmiður. Gagnger viðgerð fór fram á kirkjunni árið 1950.
Meðal góðra gripa hennar er tréskurðarskreyting á austurgafli, yfir altarinu. Þar er forn altaristafla, máluð á tré, sem sýnir kvöldmáltíðina. Prestssetur á Stað var lagt niður með lögum 1885 en aftur varð Staður prestssetur á árunum 1904-1920, þegar Eiríkur Gíslason (1857-1920), prófastur, fékk að sitja í stað Prestsbakka í Bæjarhreppi.
TRÖLLAKIRKJA
Tröllakirkja er hátt og áberandi fjall efst á Holtavörðuheið á suðurmörkum Strandasýslu. Fyrir og á landnámsöld var þar samkomustaður trölla og þursa, þar sem þeir ræddu hvernig ætti að bregðast við búsetu manna í landinu. Flest tröllanna voru friðsemdarfólk, sem fækkaði smám saman, þegar þrengt var að þeim en einkum eftir að kristni var lögtekin.
Skessan, sem bjó í grennd við Tröllakirkju, var þó um kyrrt, þótt henni væri meinilla við kristnina. Mælirinn fylltist þó hjá henni, þegar kirkjan að Stað í Hrútafirði var byggð. Hún blasti við ofan af Tröllakirkju og kerling varð stöðugt argari og ákvað að gera eitthvað í málinu. Hún fór ríðandi niður fjallið á fyrsta messudegi og fleygði stórum steini í átt að kirkjunni, þegar hún var komin í skotfæri. Hún missti marks og drap fjögur hross í hestaréttinni. Kristnin breiddist út og tröllin hörfuðu norður.
Þau skildu lítið annað eftir en örnefnin, sem við njótum enn þá í landslaginu.