Á Siglufirði er síldarminjasafn og síldarhátíðir eru haldnar þar á hverju sumri. Þá er sett á svið síldarsöltun eins og hún gerðist fyrr á árum og klæðast allir þátttakendur fatnaði frá þeim tíma. Verbúð – síldarbraggi – hefur verið endurbyggð í upprunalegri mynd og margt fleira gert til að minnast velmegunaráranna þegar síldinni var landað og hún unnin á Siglufirði á þessu blómaskeiði bæjarins.
Siglfirðingar tala oft um tvenn norsk landnám, hið fyrra, þegar Þormóður rammi nam land um aldamótin 900, og hið síðara, þegar Norðmenn gerðu Siglufjörð að síldarhöfuðstað heimsins árið 1903. Á fjörutíu ára tímabili varð lítið og fámennt þorp að fimmta stærsta bæjarfélagi landsins með rúmlega 3000 íbúa. Þessi þróun byggðist á síldinni. Það var saltað á 23 plönum og lýsi og mjöl var brætt í fimm verksmiðjum. Siglufjarðarhöfn var meðal hinna mikilvægustu á landinu og útflutningsverðmætin þaðan námu oft 20% af heildarútflutningi landsins. Það ríkti sannkölluð „gullgrafarastemmning” á Siglufirði á þessu tímabili. Síldarspekúlantar komu og fóru, annaðhvort vellríkir eða sárafátækir, og í tímans rás fengu tugir þúsunda verkamanna vinnu þar. Þegar illa viðraði lágu hundruð síldarbáta frá ýmsum löndum í höfninni eða úti á firði. Fólksfjöldinn í bænum var þá eins og í stórborg og óvíða litskrúðugra og líflegra.