Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Síldarminjasafnið Siglufirði

Roaldsbrakki (verbúð og fiskverkunarhús) var byggður árið 1907 og dregur nafn af eigendunum, Olav og  Elas Roald frá Álasundi í Noregi. Þeir ráku síldarsöltun í 20 ár. Söltunarstöð þeirra var hin bezta og stærsta á landinu með góðum bryggjum. Þar var saltað í 30.000 tunnur árið 1916. Samtímis var talið gott, að ná 10.000 tunnum á öðrum stöðvum.

Fyrirtækið Ísafjörður hf. rak stöðina frá 1931 og síðast var söltuð síld þar 1968. Á þessu tímabili var húsið oftast kallað Ísfirðingabraggi (upprunalega voru söltunarstöðvar kallaðar „brakkar“ og orðið braggi varð algengt í munni eftir síðari heimsstyrjöldina). Helmingur Roaldsbrakka var byggður út í sjó og neðsta hæðin var hluti af söltunarplaninu, vinnu og geymslurými. Á annarri hæð var skrifstofan, þar sem laun verkafólksins voru reiknuð út og greidd vikulega. Sjávarmegin var stór geymsla fyrir krydd og veiðafæri, en á dögum Ísfirðinganna var þar innréttaður salur fyrir verkafólkið. Á þriðju hæð voru híbýli síldarstúlkna, allt að 8 í hverju herbergi. Hliðarherbergi var notað til eldunar og til að þurrka föt. Uppi á „dimmalofti“ var geymdur alls konar útbúnaður til veiða og söltunar.

Á sumrin bjuggu allt að 50 manns í brakkanum, aðallega söltunarstúlkur. Milli 50 og 80 stúlkur unnu í hverri söltunarstöð og unnið var sleitulaust unz búið var að salta allan aflann, sem barst á land. Það gafst jafnvel lítill tími til að borða. Unnið var úti undir beru lofti og verkafólkið prísaði alltaf góða veðrið. Þegar kalt var og veður vond, varð vinnan að argasta þrældómi. Söltunarstúlkurnar fengu greitt eftir afköstum og gátu unnið sér meira inn en karlmennirnir, þegar mikil síld barst á land. Þá voru tekjur sjómannanna og verkunarfólksins hærri en í öðrum atvinnugreinum.

Fólk úr öllum stéttum flykktist í síldina og skólafólk fékk góða búbót. Það eru til margar sögur um fjörið í verbúðunum. Þær eru auðvitað misjafnar, en í heildina tekið var lífið í Roaldsbrakka með reglusamasta og siðsamasta móti og allir voru góðir vinir. Óhætt er að fullyrða, að vinnu- og lífsgleðin réði alltaf ríkjum á Siglufirði, nema e.t.v. þegar þrældómurinn varð of mikill eða þegar gæftir voru lélegar. Þá fór verkafólkið oft fátækara heim en þegar það kom til vinnu á vertíðinni

Á sumrin er líf og fjör í Roaldsbrakka. Þar sýnir fólk handtökin við síldarsöltunina og hægt er að taka þátt í slagnum. Ekki má gleyma að skoða safnið í öllum látunum.

Myndasafn

Í grennd

Sídarævintýrið á Siglufirði
Síldin var einhver mesti örlagavaldur í íslenzku þjóðfélagi á 20. öldinni og á henni byggist   nútímaþjóðfélagið. Í kringum aldamótin 1900 voru teknar…
Siglufjörður
Siglufjörður var fyrrum kallaður síldarhöfuðstaður heimsbyggðarinnar, og það ekki að ástæðulausu.  Núna er þar mikil útgerð og fiskvinnsla og ein stær…
Síldín kom og síldin Fór, Síldarleitin!!!
"Síldin kemur og síldin fer" Svipull er sjávarafli - góð og slæm síldarsumur skiptust á þótt hin góðu hafi verið tíðari. Eftir lélega síldveiði á áru…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )