Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Sídarævintýrið á Siglufirði

Siglufjörður

Síldin var einhver mesti örlagavaldur í íslenzku þjóðfélagi á 20. öldinni og á henni byggist   nútímaþjóðfélagið. Í kringum aldamótin 1900 voru teknar upp nýjar veiði- og verkunaraðferðir, sem leiddu til aukinna þorsk- og síldveiða með vélknúnum bátum og skipum. Veiðibúnaður breyttist, stækkaði og varð afkastameiri. Nýir tímar þjóðfélagsumbóta gengu í garð. Aldalöng stöðnun og fátækt var rofin. Góð síldarsumur í kreppunni á fjórða áratugi 20. aldar, þegar erlendir þorskmarkaðir voru lokaðir, tryggðu þjóðinni efnahagslegt sjálfstæði og átti hlut í fullu sjálfstæði hennar árið 1944 eftir rösklega 560 ára yfirráð Dana. Einnar aldar síldveiðar voru upphafið að ævintýri, sem er ekki lokið enn þá.

Upphafið má rekja til síðari hluta 19. aldar, þegar Norðmenn byrjuðu að veiða síld með landnótum á Austfjörðum og í Eyjafirði og fluttu saltsíld í stórum stíl til Noregs. Norskar útgerðir komu sér fyrir víða á þessum svæðum, keyptu land við sjóinn og byggðu hús og bryggjur og höfðu mikil áhrif á lífsafkomu og þéttbýlismyndun (Seyðisfjörður, Eskifjörður o.fl.). Íslendingar reyndu fyrir sér í þessari nýju atvinnugrein og árið 1881 var saltað í 1100 tunnur á Siglufirði til útflutnings. Líklega var þetta fyrsta Íslandssíldin. Nokkrum árum síðar hindraði hafís síldveiðar.

Árið 1903 komu Norðmenn aftur til síldveiða við Íslandsstrendur. Floti þeirra veiddi í reknet fyrir norðurströndinni. Samtímis hófust tilraunir með snurvoð og vel tókst til. Siglufjörður varð að miðstöð síldveiða og þar voru byggðar norskar bryggjur, verksmiðjur og verbúðir. Íslendingar lærðu að veiða síld og verka hana og umsvifin urðu svo mikil, að 200.000 tunnur af saltsíld voru fluttar út árið 1916, talsvert meira en Norðmenn veiddu og verkuðu. Á þennan hátt náðu Íslendingar smám saman yfirhendinni í þessari grein og áhrif Norðmanna minnkuðu.

Saltsíld var mikilvæg fæða í mörgum Evrópulöndum, ekki sízt í heimsstyrjöldunum. Mikilvægustu kaupendur síldar voru Svíþjóð, Danmörk, Finnland, Rússland, Þýzkaland og Bandaríkin. Síld, sem var ekki söltuð, var brædd í lýsi og mjöl. Mjölið var nýtt sem dýrafóður víða í Evrópu og lýsið til ýmiss konar efnaiðnaðar, s.s. til framleiðslu sápu. Síldarafurðir voru stundum allt að 35% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar en að jafnaði 25%. Fyrstu lýsisverksmiðjurnar voru byggðar á Siglufirði 1911. Síðar möluðu stærri og fullkomnari verksmiðjur í stærstu síldarplássunum gull. Það er óhætt að fullyrða, að lýsis- og mjölframleiðslan hafi verið fyrsta stóriðja Íslendinga. Helztu síldarplássin voru: Bolungarvík, Ingólfsfjörður, Djúpavík, Skagaströnd, Siglufjörður, Dalvík, Hjalteyri, Dagverðareyri, Krossanes, Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Neskaupsstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður og Fáskrúðsfjörður.

Fiskveiðar eru óstöðugar og síldarvertíðir voru mismunandi, þó voru góðu síldarsumrin fleiri en hin lakari. Eftir nokkrar slakar vertíðir á sjötta áratugi 20. aldar komu góð síldarsumur og aflinn hafði aldrei verið meiri. Íslendingar voru í fararbroddi hvað snerti veiðitækni og aðrar þjóðir tileinkuðu sér hana. Stór stálskip komu í stað trébátanna og kraftblokkir gerðu vinnuna um borð léttari. Það þurfti ekki lengur að bíða þess, að síldin færi að vaða, því að hægt var að lóða hana með asdiktækjum. Á þessum árum færði síldin sig stöðugt austar og loks fannst engin síld lengur fyrir norðan landið, einkum vegna minni hita sjávar. Gömlu síldarbæirnir á Austurlandi urðu síldarstórveldi en ævintýrið stóð ekki lengi.

Árið 1969 hvarf síldin. Norsk-íslenzki síldarstofninn hafði verið ofveiddur. Norðmenn, Íslendingar og Rússar báru ábyrgð á því. Hvarf síldarinnar var reiðarslag fyrir efnahag viðkomandi landshluta og þjóðarinnar allrar. Á þessum árum nam útflutningur síldarafurða u.þ.b. helmingi útflutningstekna þjóðarinnar og þjóðin hafði lifað í vellystingum.

Velmegunarár síldarævintýrisins voru að baki og finna varð nýja stofna til að veiða. Snemma á áttunda áratugnum kom fram ný tækni við þorsk- og loðnuveiðar, sem skapaði nýjan grundvöll fyrir efnahagslíf gömlu síldarbæjanna og þjóðarinnar í heild. Það tók síldarstofninn 27 ár að ná sér á strik og nú eru síldveiðar stundaðar á ný. Síldin var friðuð í norsku fjörðunum um árabil og stofnarnir leita á Íslandsmið í fæðuleit eins og fyrrum.

Myndasafn

Í grennd

Siglufjörður
Siglufjörður var fyrrum kallaður síldarhöfuðstaður heimsbyggðarinnar, og það ekki að ástæðulausu.  Núna er þar mikil útgerð og fiskvinnsla og ein stær…
Síldarhátíð á Siglufirði
Á Siglufirði er síldarminjasafn og síldarhátíðir eru haldnar þar á hverju sumri. Þá er sett á svið  síldarsöltun eins og hún gerðist fyrr á árum og kl…
Síldín kom og síldin Fór, Síldarleitin!!!
"Síldin kemur og síldin fer" Svipull er sjávarafli - góð og slæm síldarsumur skiptust á þótt hin góðu hafi verið tíðari. Eftir lélega síldveiði á áru…
Sögustaðir Norðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Ábæjarkirkja Aðaldalur Akureyrarflugvöllur Akureyri Innbærinn Árbæjarkirkja Skaga…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )