Siglunes er nyrzta nesið milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Nesnúpur (581m) rís hvass upp af nokkru láglendi en inn með firðinum eru hinar snarbröttu Nesskriður.
Aðalbyggðin var fyrrum á Siglunesi með kirkju og prestsetri. Sagt er að 50 manns hafi farizt í snjóflóði þar við tíðir í kirkjunni árið 1613. Næsta ár var sóknarkirkjan flutt til Hvanneyrar og útkirkja stóð á Siglunesi til 1765.
Fyrsti vitinn á Siglunesi var reistur árið 1908 og endurnýjaður 1926. Úti fyrir nesinu eru hættulegar grynningar, sem heita Hellur. Sjór var sóttur frá Siglunesi víða að af landinu um langa hríð og mikið var veitt af hákarli. Siglunes er í eyði en austan þess er Reyðará við mynni Nesdals er í byggð. Á þessum afskekkta bæ eru gerðar veðurathuganir.
Jörðin Siglunes lagðist í eyði árið 1988 en þar var um langt skeið ein helsta hákarlaverbúð landsins. Liggja því merkar minjar þar í jörð. Árið 2011 lét Fornleifavernd ríkisins gera úttekt á Siglunesi þar sem landbrot var meðal annars metið. Kom þar fram að töluvert landbrot hefði verið undanfarin 60 ár, gróðurþekja minnkað, sumar minjar skemmst vegna ágangs og einhverjar minjar þegar horfið í sjó.