Reykjavatn er í jaðri Hallmundarhrauns suðaustan Arnarvatnshæða og u.þ.b. 10 km norðan Eiríksjökuls. Það tilheyrir ekki beinlínis Arnarvatnsheiði en er í jaðri hennar. Flatarmál þess er u.þ.b. 1,8 km” og það er í 510 m hæð yfir sjávarmáli. Umhverfi þess er gróðursælt, fjallasýnin fögur og góð bleikju- og urriðaveiði í vatninu. Tærar vatnslindir koma víða upp á yfirborðið við vatnið. Afrennsli vatnsins er Reykjaá, sem fellur til Norðlingafljóts.
Skammt frá vatninu, u.þ.b. 200-300 m frá Franzhelli, er Eyvindarhola. Hún er 1,2-1,7 m djúp í miðjunni og lækkar til hliðanna og 3-5 m í þvermál. Nafngiftin er eignuð Fjalla-Eyvindi og hann er talinn hafa lagað hana til, þannig að erfitt er að greina hana frá yfirborðinu. Hún er utan í lágri bungu og tvö vörðubrot visa veginn að henni. Bezt er að vera á fjórhjóladrifnum bílum til að aka að vatninu.
Vegalengdin frá Reykjavík um Kaldadal er u.þ.b. 160 km og frá Kalmanstungu u.þ.b. 40 km.