Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Reiðhjallavirkjun

Samkvæmt ævisögu athafnamannsins Einars Guðfinnssonar má líklega rekja forsögu þessarar virkjunar  til ársins 1919, þegar Jón J. Fannberg var oddviti Hólshrepps. Hann er talinn vera einhver helzti frumkvöðull virkjunar Fossár í Syðridal.

Hólshreppur hóf þar framkvæmdir sumarið 1929 með stíflugerð fyrir 0,05 Gl inntakslón uppi á Reiðhjallanum í u.þ.b. 330 metra hæð. Steypuefni varð að flytja neðan frá sjó, fyrst með bíl fram að Syðradalsvatni, þar sem efnið var sekkjað. Þaðan var efnið flutt með pramma yfir vatnið fram í Gilsodda. Ós vatnsins var stíflaður áður til að hækka vatnsborð svo að pramminn flyti hlaðinn. Frá Gilsoddanum var efnið flutt að rótum Reiðhjallans og svo á klakki upp að stíflustæðinu. Þennan burð þoldu ekki nema hraustustu hestar, því um klungurveg var að fara.

Ekki tókst þó að ljúka þessum framkvæmdum vegna lánsfjárskorts, enda miklir erfiðleikar í íslensku efnahagslífi þá. Þrjátíu árum síðar var stíflan nothæf sem grunnur að endanlegri stíflu.

Samkvæmt rafvæðingaráætlun ríkistjórnar Ólafs Thors var hafizt handa við byggingu virkjunarinnar í júní 1956. Síðar var gert ráð fyrir að virkjunin yrði tengd raforkukerfi Vestfjarða eftir að svokallaðri Mjólkárveitu væri lokið. Hinn 8. marz 1958, var Fossárvirkjun, eða Reiðhjallavirkjun eins og hún er nefnd í dag, tekin formlega í notkun.

Sigurður Thoroddsen verkfræðingur hafði yfirumsjón með mælingum og hönnun burðarvirkja. Rafmagnsdeild Rafmagnsveitnanna sá um aðra tæknivinnu og uppsetningu í samvinnu við framleiðanda. Arkitekt stöðvarhúss var Sigvaldi Thordarson. Byggingarmeistarar og verktakar voru Ragnar Bárðarson og Þórður Kristjánsson. Skoda-Export í Tékkóslóvakíu afgreiddi og hannaði bæði þrýstivatnspípu og vél- og rafbúnað fyrir virkjunina. Alls unnu 20-35 manns við framkvæmdirnar.

Heildarlengd stíflu er 350 m, þar af 30 m. steinsteyptir, með mestu hæð 5,5 m. Yfirfallið er í 333 m.y.s. og verg fallhæð er 316 m. Þrýstivatnspípan er rúmlega 1,4 km löng stálpípa, 0,3 til 0,35 m. að innanmáli. Stöðvarhúsið stendur niðri við Tröllá. Uppsett afl var 400 kW með hverfli af Pelton-gerð. Raunfallhæð við fullt álag var um 292 m og rennslið við sama álag 0,177 m3/s.

Fyrsti rafveitustjóri þessarar virkjunar var Jóhann Líndal. Í upphafi var reiknað með að aðeins yrðu haldnar vaktir í stöðvarhúsinu í einn mánuð og var ráðinn vélstjóri til þess að sinna vöktum í öryggisskyni með Jóhanni. Sá vélstjóri var Kjartan Guðjónsson frá Bolungarvík.

Raforkuframleiðslan hefur verið mikil þau ár sem Orkubú Vestfjarða hefur rekið virkjunina, eða frá árinu 1978. Nýtingartíminn að meðaltali hefur verið yfir 7200 tímar og framleiðslan um 2,9 GWh á ári. Mikið lindarennsli skýrir þessa góðu nýtingu, því vatnasviðið er ekki nema 0,8 km2.

Endurnýjun
Sumarið 1989 bilaði rafall virkjunarinnar. Ákveðið var að athuga, hve dýr endurnýjun alls búnaðar yrði og í upphafi árs 1990 var leitað tilboða í hann með auknar nútímalegar kröfur að leiðarljósi. Þær helztu voru eftirfarandi:

– Gæzlufrí stöð.
– Vatnshæðarstýring möguleg.
– Stöðin yrði tengjanleg við fjargæzlubúnað Orkubúsins.
– Stækkun vélasamstæðu eins og þrýstivatnspípan leyfði.

Sex tilboð bárust og tilboði frá Smith & Norland h.f., kr. 16.197.000, var takið. Rafall, rafmagnsbúnaður gangráðs og annar raf- og stjórnbúnaður kom frá Siemens. Vélbúnaður og vökvahluti gangráðs kom frá Wassenkraft Volk. Bæði fyrirtækin í Þýskalandi.

Gamla stöðin var síðan tekin út af neti Orkubúsins 25. júní 1991. Þá hófst vinna við stífluhús og endurbætur á stíflu og var því verki lokið í ágúst 1991. Raf- og vélbúnaður var tekinn niður í september og í október kom nýi búnaðurinn.

Hinn 12. nóvember hófust prófanir og stilling búnaðar. Vélin var fyrst látin snúast 24. nóvember og prófunum lauk 6. desember.

Vatnshverfillinn er eins og áður af Pelton-gerð með tvívirkum gangráð, bunuskera og einni nál. Afl nýju samstæðunnar er 520 kW, snúningshraðinn 1000 s/mín og rafalaspenna 400 V. Við stækkunina lækkaði verg fallhæð undir 280 m og rennslið jókst í 0,22 m3/s.

Raforkuframleiðslan fyrsta heila starfsárið með nýju vélinni var tæpar 3,7 GWh.Er það um 26% aukning miðað við áðurnefnt meðaltal og 11 % aukning miðað við metframleiðslu sem var 3,3 GWh árið 1984.

Bæði árin var einnig unnið við endurbætur á stöðvarhúsinu, utan sem innan. Húsið var sandblásið, múrhúðað og málað að utan. Einnig var settur gúmmídúkur á þak og nýtt gler í alla glugga. Gólf hússins voru flísalögð og aðrir hlutar málaðir. Lýsing, flísalögn og annar lóðarfrágangur umhverfis stöðvarhúsið og margt fleira.

Starfsmenn Orkubúsins, bæði svokölluð Reiðhjallanefnd og vinnuflokkur fyrirtækisins í Bolungarvík, sáu um alla tæknivinnu og einnig hluta af uppsetningu búnaðarins, ásamt verktökum í Bolungarvík. Seljendur búnaðarins sáu um nauðsynlegar forritanir, stillingar og prófanir.

Eignfærður kostnaður var bæði árin um 30 Mkr. Annar kostnaður, sem færður var á rekstur, t.d. niðurrif á gamla búnaðinum, viðhald húss og stíflu, frágangur lóðar o.s.frv. var um 15 Mkr. Kostnaður við gerð virkjunarinnar 1958 var talinn vera um 11 mkr. á þágildandi verðlagi. Framleiðsluverðmæti virkjunarinnar 1992 miðað við heildsölu gjaldskrá Landsvirkjunar var rúmar 10 Mkr.

Á vígsludegi virkjunarinnar, eftir endurnýjunina, þakkaði stjórnarformaður, Eiríkur F. Greipsson, öllum þeim aðilum, sem unnu að henni. Kvað hann allan frágang bera fagmannlegu handbragði glöggt vitni. Hann fór með vísukorn eftir Guðmund Inga Kristjánsson. Ort um íslenzkar virkjanir:

Aldrei var svo vitlaus gerð
virkjun hér á landi,
að hún borgi ei sitt verð
og til heilla standi.

UPPLÝSINGAR AF VEFSETRI O.V.

Myndasafn

Í grennd

Orkubú Vestfjarða, ferðast og fræðast
Orkubú Vestfjarða HF var stofnað á grundvelli laga frá 2001. Orkubú Vestfjarða HF tók til starfa 1. júlí   2001. Orkubú Vestfjarða var fyrsta rafveita…
Orkuveita Reykjavíkur Rafmagnsveita
Tilgangur Rafmagnsveitunnar er að dreifa og selja raforku og því eru kaupendurnir eða notendurnir   raunverulega það, sem öll starfsemin beinist að. R…
Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu Vatnajökull (2110m) er stærsti jökull Evrópu, 8100 km². Heildarísmagn jökulsins er talið vera í nánd við 4000 km…
Virkjanir á Íslandi, ferðast og fræðast
Listi yfir raforkustöðvar í stafrófsröð Bjarnarflag Blævardalsárvirkjun Blönduvirkjun Búðarhálsstöð Búrfellsvirkjun …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )