Farfuglaheimilið Ósar er á austanverðu Vatnsnesi. Þaðan liggur stígur niður í fjöru að áhugaverðu selalátri við ósa Sigríðarstaðavatns. Það er hægt að komast að ósnum frá stígnum niður að Hvítserki og leggja bílum á bílastæðið þar. Þar þarf að fara varlega um brattar tröppur, sem liggja niður í fjöru. Stundum má sjá á annað hundrað seli á eyrunum. Neðan Ósa er æðarvarp, sem gestir eru beðnir um að sýna tillitssemi á varptímanum, maí til júní.