Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ögur

Bær og kirkjustaður í Ögurvík, milli Skötufjarðar og Mjóafjarðar við Ísafjarðardjúp.

Ögur er stórbýli. þar  var höfðingjasetur að fornu en mestur var vegur staðarins frá seinni hluta 15. aldar og fram á 17. öld. Þá bjó hvert stórmennið öðru meira og auðugra í Ögri. Fyrsta mikilmenni, sem þar kemur við sögu, er Björn Guðnason (-1518) sýslumaður. Björn var valdamesti maður á Vestfjörðum um sína daga, héraðsríkur og óvæginn. hann átti í stórfelldum deilum við Skálholtsbiskup og stóð fastur fyrir unz dauðinn veitt biskupsvaldinu lið. Páll Eggert Ólason telur að Björn Guðnason hafi fæðzt á Hóli í Bolungarvík, búið á Eyri í Seyðisfirði áður en hann flutti að Ögri og vitnar því til staðfestingar í þessa gátu hans:

Rann ég frá raupi (Hóli)
rataði síðan á tólf fiska (Eyri)
þar ég fekk þungan móð (Ögur).“

Magnús Jónsson (um 1525-1591) sýslumaður, kallaður prúði, bjó í Ögri á árunum 1565-1580. Hann var mörgum ágætum mannkostum búinn, vitmaður og skörungur, lögfróður, skáld og auk þess héraðshöfðingi um sína daga. Magnús vildi taka upp vopnaburð að nýju meðal Íslendinga til verndar gegn erlendum ránsmönnum, sem oft komu upp að Íslandsströndum og fóru með ófriði. Sjálfur reið hann til Alþingis ár hvert með 40 manna vopnað lið.

Sonur Magnúsar prúða, Ari (1571-1652) sýslumaður settist í bú að Ögri eftir föður sinn. Ari (Ari í Ögri) var svo stór vexti, að hann var höfði hærri en aðrir menn. Hann var héraðsríkur og því nær einvaldur um alla Vestfirði um sína daga. Þegar honum var boðið lögmannsembættið fyrir Suður- og Austurland, sem var ein mesta virðingarstaða á Íslandi, hafnaði hann því, vildi heldur vera bóndi í Ögri. Ari sýslumaður fór með her manns á hendur spænskum mönnum, sem orðið höfðu skipreka við Ísland en fóru síðan víða um Vestfirði með ránum og gripdeildum (Sandeyri, Æðey). Séra Arnfinnur Magnússon (1666-1741?) fékk Ögurþing árið 1691 en var vikið úr embætti árið 1730 vegna embættisglapa, þegar hann var drukkinn við messugjörð í Súðavíkurkirkju.

Um séra Arngrím er það annars tekið fram í samtímaheimildum, að „hann hafi haft sérlegan viðbjóð á kvenfólki”. Í Ögri fæddist Björn Markússon (1716-1791). Hann þótti vitur maður, lögfróður og réttsýnn. Hann hafði meiri eða minni afskipti af ýmsum menningar- og framfaramálum þjóðarinnar. Eftir Björn hafa varðveitzt handrit, þar á meðal að íslenzkri-latneskri orðabók. Árið 1750 fékk Björn styrk frá konungi til að hefja kornrækt á Íslandi. Um miðbik 18. aldar bjó Erlendur Ólafsson (1706-1772) í Ögri. hann var málafylgjumaður mikill og átti í stöðugum málaferlum. Öðrum þræði var hann gáfumaður og skrifaði ritgerð á dönsku um viðreisn Íslands, þar sem hann kemur fram með ýmsar athyglisverðar tillögur, sem sumar voru teknar til greina. hann skrifaði einnig upp ýmis merk handrit og hafa þessar afskriftir hans geymzt.

Á árunum 1884-85 var reist í Ögri stærsta íbúðarhús, sem til þess tíma hafði verið byggt í sveit á Íslandi. Gerði það Jakob Rósinkarsson (1854-1894). Þetta hús stendur enn þá en mannlaust nú. Dætur Jakobs, Ragnhildur og Halldóra, reistu þar fyrstu rafstöð á sveitaheimili við Djúp árið 1928. Í Ögri var þingstaður Ögurhrepps. Þar var lengi landsímastöð og póstafgreiðsla og bryggja er í Ögurvík og viðkomustaður Djúpbátsins. Þangað voru bílar ferjaðir frá Ísafirði en sumarfær vegur inn Djúp og á Þorskafjarðarheiði komst á mörgum árum fyrr en út með Djúpi. Í Ögurnesi var kunn veiðistöð og hélzt lengi en þurrabúðir margar í Ögurvíkinni langt fram á 20. öld. Þar var læknissetur frá 1932-1951, þegar Ögur- og Hesteyrarlæknishéruð voru sameinuð í Súðavíkurhérað.

Í Ögurlæknishéraði voru Súðavíkur-, Ögur-, Reykjarfjarðar- Nauteyrar- og Snæfjallahreppar. Í læknishúsinu býr núverandi Ögurbóndi og er það eina heimilið í Ögri nú. Ögurkirkja er stórt og vandað timburhús, reist 1859. Hún á marga góða gripi en marigir hinna dýrmætustu eru komnir á Þjóðminjasafnið. í Ögri var höfuðkirkja Ögurþinga, en útkirkja á Eyri við Seyðisfjörð. Prestssetrið var á ýmsum jörðum í sóknunum, síðast á Hvítanesi og svo í Súðavík. Prestakallið var lagt niður með lögum 1970. Ögursókn sameinuð Vatnsfjarðarprestakalli

Myndasafn

Í grennd

Æðey
Æðey er stærst fjögurra eyja á Ísafjarðardjúpi skammt undan Snæfjallaströnd í stefnu frá Ögri á   Mýrarfjall. Æðey er 2,2 km löng og um 0,8 km breið. …
Ísafjarðardjúp
Þessi stóri og marggreindi fjörður er nefndur Djúpið í daglegu tali. Hann er um 20 km breiður milli  Stigahlíðar og Grænuhlíðar, en er innar dregur, m…
Ísafjörður
Ísafjörður, sem stendur við Skutulsfjörð, hét að fornu Eyrarhreppur, en var einnig áður nefndur Eyri. Ísafjörður er gjarnan sagður vera höfuðstaður me…
Skötufjörður
Skötufjörður er 16 km langur en þröngur. Hann gengur inn í Glámuhálendið milli Hvítaness og Skarðseyrar í Ögursveit. Inn af firðinum heitir Skötufjarð…
Sögustaðir Vestfjörðum
Álftafjörður Álftamýri Arnarfjörður Arnarnes Æðey Barmar Bjarkarlundur Borgarland Botn er í Bo…
Vigur
Vigur er næststærsta eyjan í Ísafjarðardjúpi. Hún er fyrir mynni Skötufjarðar og Hestfjarðar, um 2 km á  lengd og tæpir 400 m á breidd. Í Vigur er eit…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )