Laugarvatn er lítið stöðuvatn í Laugardal í Árnessýslu. Þar hefur byggst upp stærsti skólakjarni utan þéttbýlis á landinu. Fyrsti skólinn var stofnaður að tilhlutan Jónasar frá Hriflu árið 1928. Jarðhitasvæðið og gufubaðið eru áhugaverð. Veiði og vatnaíþróttir eru stundaðar við og á Laugarvatni. Lýsing á veiði í Apavatni á hér og vel við.
Vatnið er í eðli sínu vasaútgáfa af Apavatni. Þó hefur veiðst vel í vatninu fram undan Laugarvatnsþorpinu snemma á vorin, en volgt hveravatn glæðir botndýralífið í kuldatíðinni.
Bleikjan er ögn vænni í Laugarvatni en Apavatni, 2 punda fiskar eru nokkuð tíðir og í Hólaá, sem rennur úr vatninu, finnast allt að 7 punda bleikjur.
Vegalengdin frá Reykjavík um Gjábakkaveg er 75 km.