Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Laugar í Sælingsdal

Sælingsdalur er grösugur dalur, umluktur lágum fjöllum til norðvesturs frá botni Hvammsfjarðar.

Sælingsdalstunga er fornt höfuðból undir Tungumúla og fyrrum kirkjustaður (til 1853).   Þar var sóknarkirkja og samkvæmt Jarðabók Dalasýslu frá 1731 var þar embættað fjórða hvern helgan dag. Samkvæmt Eyrbyggju byggði Snorri goði fyrstu kirkjuna. Kirkjan í Tungu og á Ljáskógum voru fyrstu kirkjur í Dölum. Tungukirkja var helguð allsvaldandi Guði, sælli Guðsmóður og Jóhannesi skýrara. Hún var í bóndaeign og aflögð 1853.

Guðrún Ósvífursdóttir hafði bústaðaskipti við Snorra goða á Helgafelli og fluttist þangað eftir að Bolli Þorleiksson hafði verið veginn, en hann drap áður Kjartan Ólafsson samkvæmt Laxdælu. Þarna sést enn þá fyrir rústum kirkju, sem Snorri goði lét reisa áður en hann fluttist að Helgafelli. Afkomendur Sturlu Þórðarsonar lögmanns bjuggu í Tungu fram eftir öldum. Tungustapi er í landi Sælingsdalstungu við Sælingsdalsá. Samkvæmt þjóðtrúnni er þar biskupssetur og dómkirkja álfanna og margir þekkja einhverja stórbrotnustu álfasögu landsins, sem tengist honum.

Í Ásgarði var sóknarkirkja í bóndaeign. Samkvæmt Sturlungu var sr. Erlendur Hallason búsettur á Ásgarði. Þar er Ásgarður fyrst nefndur í ritum. Kirkjan var helguð Ólafi Regis. Kirkja var komin þangað fyrir 1327, þá átti prestur í Tungu að syngja þar tíðir. Þar var messað hvern helgan dag. 1355 eru þar skyldigjaldatíundir og eyristollar til Tungu. 1456 er Ásgarður gefin að hálfu til „kvonarmundar“. Til eru vitnisburðarbréf frá 1470 og 1534 og jarðsölubréf frá 1583. Máldagi er varðveittur frá 1536. Gísli biskup Jónsson lagði Magnússkóga og Leysingjastaði til Ásgarðs árið 1615. Samkvæmt Jarðabók Dalasýslu frá 1731 var þar embættað fjórða hvern helgan dag. Kirkjan var aflögð 1882. Kirkjugarður sléttaður um 1928. Ögmundur biskup var frá Ásgarði.
(Heimild: Óskar Ingi Ingason.

Sælingsdalslaug (Laugar) er annar bær í dalnum. Ósvífur Helgason, faðir Guðrúnar, bjó þar. Tvær heitar uppsprettur (60°C) koma undan fjallinu. Önnur þeirra var og er notuð til upphitunar heimavistarskóla (grunnskóli), gamallar og nýrrar sundlaugar og annarra húsa á staðnum. Forn mannvirki við hina uppsprettuna, hellustokkur, sem er að mestu horfinn undir skriðu, gæti verið vísbending um laugina fornu úr Íslendingasögunum. Byggðasafn Dalamanna er í skólahúsunum, í skólanum var rekið hótel á sumrin, sem er 16 km. frá Búðardal og 170 Km. frá Reykjavík.

 

Myndasafn

Í grennd

Búðardalur
Búðardalur er kauptún við innanverðan Hvammsfjörð. Þar er miðstöð þjónustu við landbúnað í Dalasýslu og víðar. Fyrsta íbúðarhúsið var reist í Búðardal…
Dalasýsla hálfkirkjur og bænahús
Snóksdalssókn Hálfkirkja var fyrrum á Dunki í Hörðudal. Hún var í bóndaeign. Herra Gísli Jónsson, biskup í Skálholti (1558-87) skipaði hálfkirkju að …
Haukadalur, Dalarsýsla
Haukadalur í Dalasýslu er talsvert breiður og grösugur dalur á milli Miðdala og Laxárdals.  Haukadalsvatn er eina stöðuvatnið í sýslunni, mjög djúpt, …
Hvammur í Dölum
Hvammur er prestssetur og kirkjustaður í Hvammssveit í Dölum með útkirkjur á Staðarhóli, Skarði,  Staðarfelli og í Dagverðarnesi. Katólskar kirkjur st…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Akrafjall Akrakirkja Akranes Akraneskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )