Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Dalasýsla hálfkirkjur og bænahús

dalir

Snóksdalssókn
Hálfkirkja var fyrrum á Dunki í Hörðudal. Hún var í bóndaeign. Herra Gísli Jónsson, biskup í Skálholti (1558-87) skipaði hálfkirkju að Dunki 1575. Samkvæmt jarðabók Dalasýslu frá 1731 var embættað þar vor og haust. Kirkjan var aflögð skömmu eftir 1765. Ummerki eftir bein fundust á Dunki nýlega.

Samkvæmt örnefnaskrá mun hafa verið bænhús á Dunkárbakka.

Bænhús hefur verið á Hrafnabjörgum í Hörðudal, þess er getið í Hrafnbjargabréfi kaupbréfi frá árinu 1393. Annars eru um það engar sagnir eða heimildir. Á síðustu öld var talað um að kirkja eða bænhús hafi verið á Laugum í Laugadal. Á að hafa farið í eyði í plágunni eftir 1400. Laugar voru og eru í eign Hrafnabjarga og er því mögulega um sama bænhús að ræða. Hinsvegar var Hrafnabjörg það mikið stórbýli að þar væri eðlilegt að hafa bænhús eða hálfkirkju.

Munnlegar heimildir eru einnig um bænhús í Blönduhlíð. Rústin er hringlaga og austast í henni er steinn sem hefur slétta hlið og hefur hugsanlega haft hlutverk í kirkjunni áður, jafnvel úr hofi, hver veit? Þrjú samliggjandi leiði utan garðs, sem liggja norður/suður benda einnig til að hér sé forn bænastaður. Jafnvel frá mörkum kristni og heiði. Við hliðina á rústinni er grjóthrúa. Þar eru líklega tilhöggnir steinar úr hleðslu. Ekki eru til skriflegar heimildir um bænhúsið sem hefur verið lagt niður löngu fyrir 1744.

Álfaprestur Hörðdælinga býr samkvæmt sögnum í Skjaldhamri, sem er á milli Seljalands og Hóls. Nær Seljalandi. Álfabiskupinn býr í Kastala upp af bænum í Tungu undir Tungufjalli. Steinarnir Draugur við Hólsbotn og Tregasteinar í Hólsfjalli eru sagðir vera brot stafs tröllkonunar í Þórutindi, en hún ætlaði að kasta honum í Snóksdalskirkju, en hann brast í tvennt og lentu brotin hvort sínu megin fjalls.

Kvennabrekkusókn
Á Sauðafelli var sóknarkirkja þar til 1919 er hún var lögð niður. Fimm bænhús heyrðu til Sauðafells, á Breiðabólsstað, Fellsenda, Hamraendum og í Hundadal neðri og enn eitt í Miðdölum.
Hálfkirkja er skipuð að Fellsenda í Miðdölum með bréfi Stefáns biskups 19/9 1499. Syngja átti 24 messur á ári. Greiðslur voru 12 aurar. (Dipl. Isl. VII, bls 437.)
Bænhús var á Breiðabólsstað í Sökkólfsdal. Bænhússkylda var þar 1479. (Dipl. Isl. X, bls. 46-7)
Í upphafi aldarinnar fundust legsteinar á Hamraendum. Kirkjugarðurinn var við endann á gamla fjósinu, sem nú er rifið.

Er nýja húsið var byggt í Neðri Hundadal fannst þar kirkjugarður.

Í Fremri Hundadal fannst gamall legsteinn.

Kirkja var fyrr meir í Þykkvaskógi (Stóra-Skógi) í Miðdölum, lögð niður fyrir löngu. Kirkja var þar eigi síðar en á 14. öld og líklega fram undir 1600. Hennar er getið í máldögum frá 1367 (Dipl. Isl. III, bls. 223) og 1397 og einum frá 1491-1519. Í kaupmála frá 1427 er reiknuð kirkjunni 2 kúgildi, messuklæði og kaleikur. Kirkjunnar er getið árið 1544. Árið 1666 er minnst á réttindi kirkjunnar í Stóra Skógi. Hún var helguð Maríu Mey og Magnúsi Eyjajarli, en hann var aukadýrlingur í nokkrum íslenskum kirkjum. Niður af bæjarhólnum er örnefnið kirkjuflöt. Bænhúsið var efst í landi Skógskots, neðan við Stóra Skógsbæinn.

Stóra Vatnshornssókn
Hálfkirkja var á Jörfa í Haukadal. Hún var í bóndaeign, helguð Jómfrú Maríu og helgum krossi. Krossmessa á hausti var 15. september. Aðfaranótt hennar stóð að öllum líkindum Jörfagleðin. Til er jarðarkaupabréf frá 1477. Þar er þess getið að á Jörfa er hálfkirkjuskylt. Árið 1518 eru deilur um greiðslur vegna hálfkirkjunnar. Á Jörfa átti þá að syngja 48 messur frá Vatshorni, það er annan hvern helgan dag. Fjórir máldagar eru til um kirkjuna frá 1523 og síðar.
Kirkjugarðurinn er um 13 m. að innanmáli. Kirkjurústin er um 3 m. breið og 6 m. löng að innanmáli. Torfveggir eru á þrjá vegu, allt að 50 cm. háir, en timburþil hefur verið á vesturgafli. Þar var inngangurinn.

Séra Þorleifur Þórðarson leggur til í Hvammi 28. júní 1753 að kirkjur á Jörfa og Stórholti séu ekki lengur nauðsynlegar. Jörfakirkja var lögð niður með konungsbréfi 17/5 1765.
Í Héraðssafni Dalamanna á Laugum er að finna veggskáp úr kirkjunni. Einnig er til hurðarhringur í einkaeign úr kirkjunni.

Til Vatnsenda lágu fimm bænhús, en ekki er kunnugt hvar þau voru. Munnmælasögur eru þó um hálfkirkju undir Kirkjufelli í Haukadal (65°03.757N og 021°23.009W – EPE21m.) og á Hofi (milli Hamra og Jörva, fyrir neðan Gálghamar). Rústir þar við Draugafossa eru nokkuð greinilegar, en svipar mjög til bænhúss og eins staðsettning miðað við bæinn. Rústin er 11*4m. Ekki er þó einróma álit heimamanna að á Kirkjufelli og í Hofi hafa verið kirkjur. Líklega var aðeins hof á Hofi, en þær rústir minna mest á stekk.

Heimagrafreitir eru í Köldukinn og á Litla Vatnshorni.
Munnmælasögur eru um prest sem var að embætta að Kirkjufelli og vatt sér út í fullum skrúða út í Villingadalsá og tók þar upp úr ánni steina þrjá, blessaði þá og nefndi Fullsterk, Hálfsterk og Amlóða. Þessir steinar eru til, en við hlið þeirra er fjórði steininn sem kemur hinum ekkert við. Þessi saga er ekki sú eina sem skýrir frá sögu steinanna.

Hjarðarholtssókn
Kirkja var fyrrum á Svarfhóli í Laxárdal, en er lögð niður eftir 1570. Til er máldagi um hana frá 1470. (Dipl. Isl. V, bls 595.) Syngja á þar 48 messur frá Hjarðarholti eða annanhvern helgan dag. Fyrir það var goldið 2 merkur. Kirkjan var í rómverskum sið helguð Ólafi konungi. Haustið 1997 fannst kirkjugarður á Svarfhóli og hellur sem liggja dýpra en beinin, sem benda til eldri minja. Vísbendingar eru um hleðslu einnig. Kannski er um að ræða eldri kirkju?

Kirkja var og fyrrum í Ljárskógum í Laxárdal.

Í Grettissögu segir: „Um haustit, er á leið, sneri Grettir aftr hið syðra, ok létti eigi fyrr, enn hann kom í Ljárskóga til Þorsteins Kuggasonar, frænda síns, ok var þar vel við honum tekit. Bauð Þorsteinn honum með sér at vera um vetrinn, ok þat þektist hann. Þorsteinn var iðjumaðr mikill ok smiður, ok helt mönnum mjök til starfa. Grettir var lítill verklundarmadr, ok því fór lítt skap þeirra saman. Þorsteinn hafði látið kirkju gera á bæ sínum. Hann lét gera brú heiman frá bænum. Hon var ger með hagleik miklum, enn utan í brúnni undir ásunum, þeim er uppheldu brúnni var gert með hringum, ok dynbjöllur, svá at heyrði yfir til Skarfsstaða, hálfa viku sjávar, ef gengit var um brúna, svá hristust hringarnir. Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð, því at hann var járngerðarmaðr mikill. Grettir var atgangsmikill að drepa járnit, enn nenti misjafnt, en þó var hann spakr um vetrinn, svá at ekki bar til frásagnar.“

Samkvæmt þessu var kirkjan byggð fyrir árin 1016-18. Kirkjutóftin er rúmlega 9 m. á lengd og 6,5 m. á breidd. Þar hefur verið kirkjugarður, því fundist hafa mannabein. Það sést votta fyrir brúnni. Svo virðist vera sem brúin hafi verið há. Í uppgreftri kapt. Daniels Bruuns og dr. Finns Jónssonar fannst steinn sem lá í kórnum, í austur/vestur, um meter á lengd. Hugsanlega legsteinn. Kirkjan hefur að líkindum verið heimiliskirkja og fljótlega aflögð (12. öld).

Heimagrafreitur er að Dönustöðum. Samkvæmt sóknarlýsingu séra Ólafs Ólafssonar, prófasts í Hjarðarholti, voru víða bænhús í Laxárdal en vitneskja um þau horfin, þó taldi hann bænhús hafa verið á Dönustöðum.

Munnmælasögur eru um að á besta veiðistað í Laxá í Dölum, Kristnapolli, hafi laxdælingar verið skírðir. Það skýrir nafnið og á einnig að skýra hví þessi staður er svo fengsæll. Þingmenn Dala hafa verið skírðir í Krosslaug í Lundarreykjadal árið 999 eða 1000. En almenningur þá í Kristnapolli. Tilvalið er að minnast þess með sérstökum hætti árið 999 þegar kristnitökuafmælisins verður minnst í prófastsdæmunum. Gaman væri að vita hvort þetta sé eini staðurinn sem vitað er að almenningur var skírður á síðustu ársþúsundsmótum (þúsaldarmótum).

Séra Sveinn Víkingur telur að á þeim stöðum sem kristnir landnámsmenn numu land og leysingjar þeirra, hafi verið reistir kossar og síðar bænhús. Þar hafi síðan verið í töluverðan tíma Guðshús. Slíkir staðir í Dalasýslu eru:

Hörðubólsstaður í Hörðudal (Hörður fékk Hörðudal allan út að Skraumuhlaupsá.).
Vífilsdalur (Vífill, þræll Auðar, fékk Vífilsdal).
Breiðabólsstaður (Sökkólfur, lausingi Auðar, fékk allan Sökkólfsdal).
Hundadalur (Hundi, lausingi Auðar, fékk Hundadal)
Erpsstaðir (Erpur, þræll Auðar og sonur Melduns jarls, fékk Sauðafellslönd, milli Tungár og Miðár.).
Höskuldsstaðir (Dala-Kollur fékk Laxárdal allan og setti bú saman fyrir sunnan Laxá.)
Hvammur (Auður djúpúðga nam Breiðafjarðardali.).

Einnig er mögulegat að bæjarheitið Kross eigi við stað þar sem kross var reistur, í öndverðu eða síðar, það á þá við Kross fremst í Haukadal. Örnefnið krosshóll er í 50-100 m. fjarlægð frá gamla bænum á Sólheimum í Laxárdal. Ekki er ólíklegt að á fjörförnum leiðum yfir heiðar hafi verið bænhús eða kross á síðasta bæ. Gæti það átt við Sólheima og Láxárdalsheiði annars vegar og Kross og Haukadalsskarð hinnsvegar. Skarð í Haukadal er einnig bær sem var mikill og eðlilegt er að telja hann hentugan fyrir bænhús.

Myndasafn

Í grennd

Búðardalur
Búðardalur er kauptún við innanverðan Hvammsfjörð. Þar er miðstöð þjónustu við landbúnað í Dalasýslu og víðar. Fyrsta íbúðarhúsið var reist í Búðardal…
Hvammur
Hvammur er prestssetur og kirkjustaður í Hvammssveit í Dölum með útkirkjur á Staðarhóli, Skarði,    Staðarfelli og í Dagverðarnesi. Katólskar kirkjur …
Kirkjur á Vesturlandi
Flestar kirkjur í landshlutanum Akrakirkja Akraneskirkja Álftaneskirkja Álftartungukirkja Bæjarkirkja Bjarnarhafn…
Skarð
Skarð er bær og kirkjustaður á Skarðsströnd í Dalasýslu. Bærinn stendur á undir lágu felli á hjalla og  neðan hans er sléttlendi niður að sjó. Í jarða…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )