Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skarð

Skarð er bær og kirkjustaður á Skarðsströnd í Dalasýslu. Bærinn stendur á undir lágu felli á hjalla og  neðan hans er sléttlendi niður að sjó. Í jarðamatinu frá 1861 var Skarð talin þriðja hæsta jörð landsins og var meðal helztu höfuðbóla landsins um langan aldur. Jörðinni fylgir fjöldi eyja og hólma með ýmsum hlunnindum en til þess að nýta þau þurfti margar hendur. Einnig fylgdu hjáleigur og nokkur ítök.

Engin önnur jörð á landinu hefur verið í eigu sömu ættar lengur en Skarð. Landnáma segir frá landnámi Geirmundar heljarskinns, sem gerði sér bæ og kallaði Geirmundarstaði undir Skarði, en síðan fér fáum sögum af staðnum fyrr en í kringum aldamótin 1200. Þá bjó þar Húnbogi Þorgilsson, bróðir Ara fróða (1067-1148). Afkomendur Húnboga hafa síðan setið óslitið á Skarði nema í 20 ár í lok 18. aldar.

Björn Þorleifsson (1408-67), hirðstjóri, bjó þar. Englendingar drápu hann á Rifi og ekkja hans, Ólöf ríka Loftsdóttir, dró að sér mannsöfnuð til að hefna bónda sins. Sagt er, að hún hafi komið mörgum Englendingum fyrir kattarnef. Suma tók hún höndum og flutti þá heim til þrælkunarvinnu og hafði jafnmarga til að gæta þeirra. Enn þá sjást merki um mikla steinstétt, sem hún lét þá leggja að Skarðskirkju. Hún er sögð hafa geymt smjör sitt í Smjördallshólum og gengið út í Paradís og Draumakletta til að gleyma áhyggjum sínum. Þorleifur (-1486), sonur þeirra hjóna, varð hirðstjóri og Einari (-1494), bróður hans junkæri, stóð embættið til boða 1491, en hann dó áður en af yrði.

Torfi Bjarnason (1838-1915), skólastjóri og skólastofnandi í Ólafsdal, fæddist á Skarði.

Neðan Skarðs er Skarðsstöð, einhver bezta höfn í sýslunni. Þar var byggð hafskipabryggja og stunduð verzlun um tíma. Skammt þaðan voru unnin brúnkol á stríðsárunum fyrri.

Skarðsbók, ríkulegasta og fallegasta skinnhandrit Íslendinga, inniheldur Jónsbók, sem var lögbók landsmanna um aldir frá því hún var lögtekin 1281 er rituð í hana. Skarðsbók II inniheldur postulasögur og var í eigu Skarðsbænda, þar til hún var seld til Englands. Íslendingar keyptu hana aftur á uppboði árið 1965.

Myndasafn

Í grennd

Búðardalur
Búðardalur er kauptún við innanverðan Hvammsfjörð. Þar er miðstöð þjónustu við landbúnað í Dalasýslu og víðar. Fyrsta íbúðarhúsið var reist í Búðardal…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )