Landmannahellir er í móbergsfellinu Hellisfjalli sunnan Löðmunds og vestan Löðmundarvatns. Hann er 4 m hár, 8 m breiður og 14 m langur. Ferðamenn og gangnamenn áttu þar skjól á leið sinni um Landmannaleið (Dómadalsleið). Sumir telja sig verða vara við draugagang á þessum slóðum.
Vestan hellismunnans var reist sæluhús og nú er ferðalöngum boðin gisti- og matreiðsluaðstaða í nýlegum gistiskálum. Nokkuð er um að veiðimenn dvelji í skálanum á sumrin. Veiði- og hestamenn og göngufólk eru tíðir gestir.
GPS: N64 03.043 W19 13.482