Kjalnesingasaga minnist fyrst á Korpúlfsstaði og skýrir frá Korpúlfi bónda, sem var orðinn gamall maður og fremur forn í brögðum.
Korpúlfsstaðir vor sjálfstæð jörð 1234, eign Viðeyjarklausturs, en komust undir konung við siðaskiptin. Jörðin var seld 1810 og lítið af henni að frétta fyrr en kemur fram á 20. öldina.
Á síðari hluta 19. aldar átti Benedikts Sveinsson, yfirdómari og alþingismaður, jörðina. Einar, sonur hans, eignaðist hana að honum látnum og hann seldi Thor Jensen hana árið 1922. Thor hóf mikinn búrekstur og byggði húsið, sem enn stendur, árið 1929. Þar voru m.a. ráðsmannsíbúð, 39 herbergi fyrir vinnufólkið og matsalur fyrir 70 manns. Á þessum tíma var fjósið hið fullkomnasta á Norðurlöndum. Thor lét framkvæma gríðarlegar jarðarbætur, þannig að túnið var orðið 106 ha árið 1932, hið stærsta á landinu. Í árslok 1934 voru 300 kýr í fjósinu og mjólkurframleiðslan 800.000 l á ári. Mjólkin var gerilsneydd í mjólkurbúinu á staðnum. Mjólkursölulögin frá 1934 voru eins og hengingaról á mjólkurframleiðendur í Reykjavík og nágrenni og brátt dró úr búskapnum á Korpúlfsstöðum.
Reykjavíkurbær keypti Korpúlfsstaði og fleiri jarðir af Thor Jensen árið 1942 og búskap þar var haldið áfram fram undir 1970. Síðan voru húsin notuð sem geymslur og listamenn fengu þar inni til að iðka listir sínar. Margt verðmætt eyðilagðist í bruna 1969. Árið 1943 voru Korpúlfsstaðir og fleiri jarðir í Mosfellssveit innlimaðar í Reykjavík. Árið 1999 var hluti hússins innréttaður sem grunnskóli vegna mikillar fjölgunar íbúa á svæðinu. Golfarar þeytast nú um vellina, sem Thor lagði svo mikla vinnu í að rækta.
Visir þú?
Á Borðeyri kynntist Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir Thor Jensen þau eignuðust 12 börn, Margrét var eiginkona hans í rúm 60 ár.
Thor Vilhjálmsson rithöfundur var dóttursonur Thors og Björgólfur Thor athafnamaður er langafabarn hans.
Innskot: Birgir Sumarliðason, sem heldur um vefinn nat.is.