Kollabúðir eru inn af botni Þorskafjarðar.
Þar var Þorskafjarðarþing, annað tveggja vorþinga Vestfirðinga, háð á söguöld. Hitt þingið var Dýrafjarðarþing. Vorþingin voru mótsstaður þeirra, sem voru á leið til Alþingis. Gíslasaga og Landnáma segir frá atburðum á þessum vorþingum. Kollabúðafundir voru haldnir þarna 1849-95. Kollabúðafundunum var ætlað að efla sjálfstæðisvitund landsmanna. Efst a baugi voru mikilvæg landsmál og fornir siðir og íþróttir voru í hávegum hafðar. Þingstaðurinn var friðlýstur 1974 og minnismerki um þessa fundi var reist á fundastaðnum við Músará. Minnismerki um skáldið Matthías Jochumsson er í austurhlíðum fjarðarins á fæðingarstað hans að Skógum. Nokkurn spöl frá þingstaðnum er Kvalkrókur, gamall aftökustaður.
Samtímis Kollabúðafundunum voru svipaðir fundir í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Þessir fundir voru haldnir í júnílok og niðurstöður beggja voru áskoranir til konungs um veitingu fulls frelsis til verzlunar, að Alþingi yrði háð á Þingvöllum, að ritmál embættismanna yrði íslenzka og skýrsla um efnahagsmál landsins yrði samin sem fyrst og opinberuð. Jón Sigurðsson, forseti, var frumkvöðull þessara funda.
Eyðibýlið Gröf er við Þorskafjörð vestanverða. Góð gönguleið liggur þangað fyrir nesið í Djúpafjörð. Hallsteinsnes er annað eyðibýli yzt á nesinu vestanverðu. Þar voru landkostir taldir góðir, vítt til veggja og hlunnindi í Teigsskógum austar í sveitinni. Þarna bjó Hallsteinn Þorskafjarðargoði fyrstur manna.
Þrátt fyrir hrun goðaveldisins eftir 1262, voru þing háð áfram við Þorskafjörð. Þegar Noregskonungar reyndu að styrkja tök sín á landinu snemma á 14. öld, sátu Vestfirðingar heima og neituðu að sækja Alþingi 1304-05 vegna þess, að þingmenn Vestfjarða höfðu ekki fengið greitt þingfararkaup og hirðstjóri var hýrudreginn.