Kapella sr. Jóns Steingrímssonar
Kapellan er í Kirkjubæjarklaustursprestakalli í Skaftafellsprófastsdæmi. Hún var vígð 17. júní 1974 í tilefni 1100 ára Íslandsbyggðar. Ákveðið var að reisa þessa minningarkapellu árið 1966 á 175. ártíð séra Jóns. Hún var reist litlu austan við hinn forna kirkjugrunn, sem margir álíta hinn elsta hérlendis hafi papar átt þátt í honum.
Kapellan tekur 50 manns í sæti. Arkitektar hennar voru Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir og Valdimar Auðunsson , bóndi í Ásgarði í Landbroti, var kirkjusmiður.
Nunnuklaustur af Benediktsreglu var stofnað að Klaustri 1186 og það starfaði allt að siðaskiptum. Rústir klausturbygginganna sjást enn þá, þar sem heitir Kirkjuhólar.
Kirkja var á Klaustri til 1859, þegar hún var flutt að Prestbakka. Séra Jón Steingrímsson liggur grafinn í kirkjugarðinum og legsteinn á gröf hans, fimmstrendur blágrýtisstuðull. Hann var sóknarprestur, þegar Skaftáreldar gengu yfir. Eldrit hans er besta heimild um þessar náttúruhamfarir.
Margir samtímamanna hans töldu, að hann hefði stöðvað hraunrennslið í farvegi Skaftár vestan Systrastapa með kröftugri prédikun í kirkjunni á Klaustri 20. júlí 1783. Hún hefur síðan verið kölluð Eldmessan. Hraunelfan fann sér framrás vestar.