Kárahnjúkavirkjun er vatnsaflsvirkjun á hálendi Íslands norðan Vatnajökuls og er langstærsta virkjun Íslands með 690 MW afl. Kárahnjúkavirkjun virkjar jökulár Vatnajökuls. Um er að ræða nokkrar stíflur þar sem Kárahnjúkastífla er stærst, fallgöng, sveiflugöng, stöðvarhúshella, frárennslis- aðkomu- og kapalgöng , frárennslisskurð, uppsteypu mannvirkja neðanjarðar, ásamt byggingum við gangamunna. Einnig tvær 400 kV háspennulínur sem hvor um sig er u.þ.b. 50 km að lengd veita raforku til álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.