Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði er 76 m hár móbergs- og grágrýtishöfði, 9 km frá Fagurhólsmýri við sjóinn beint suður af  Öræfajökli. Hann er u.þ.b. 1200 m langur og 750 m breiður og alls staðar hömrum girtur, nema þar sem uppgangan er á sandöldu, Kóngsöldu, við hann norðanverðan. Austan lægðarinnar, sem gengur þvert yfir höfðann er Grashöfði, grösugur og grænn, en vestantil er sandorpið berg, urð og grjót á Grjóthöfða, sem er smám saman að gróa upp af fugladriti.

Björgin eru þéttsetin fugli, langvíu, álku, fýl og lunda á öllum brúnum, einkum norðantil. Fjöldi annarra fuglategunda verpa á höfðanum sjálfum og umhverfis hann. Mikið var um fuglaveiðar og eggjatekju í höfðanum fyrrum og margir fórust við þá iðju, síðast 1930. Prestssetrið Sandfell átti veiðiréttinn bændur í kring, sem stunduðu veiðarnar, greiddu hlut til þess.

Rústir verbúða við höfðann bera útræðinu, sem var stundað þar fyrrum, glögg merki. Nokkur örnefni, s.s. Skiphellir og Árabólstorfa eru til frá þeim tíma. Lendingarskilyrði spilltust við Skeiðarárhlaup og til eru sagnir um skipalægi landmegin við höfðann.

Róðrar frá Ingólfshöfða lögðust niður eftir 6. apríl 1746, þegar tveimur bátum af þremur hvolfdi í skyndilegu fárviðri og áhafnir þeirra drukknuðu. Vitinn á austurhluta höfðans var reistur 1916 og endurbyggður 1948. Þá var einnig komið fyrir radíóvita fyrir flugið og allar flugvélar, sem eiga leið á milli Íslands og Evrópu eða annarra staða í austri, fljúga þar yfir við komuna til landsins eða brottför frá því. Skipbrotsmannaskýlið á höfðanum lét Dithlev Thomsen, konsúll, reisa árið 1912.

Ingólfur Arnarson lenti þar, þegar hann kom til landsins öðru sinni, þá í fylgd fóstbróður sins, Hjörleifs, og fjölskyldna þeirra beggja. Hann hafði vetursetu í höfðanum og á þjóðhátíðarárinu 1974 var honum reistur minnisvarði þar og höfðinn friðlýstur.

Myndasafn

Í grennd

Fagurhólsmýri
Fagurhólsmýri er bær í Öræfum. Það er fallegt til allra átta frá staðnum og neðan klettanna er flugvöllur   sveitarinnar, sem leysti hana úr mestu ein…
Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði Mýrdalssandi Hjörleifshöfði er 221 m hátt móbergsfell á Mýrdalssandi suðvestanverðum. Samkvæmt Landnámu var þar fjörður fyrrum með …
Sögustaðir Suðurland
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Álfaskeið Álftaver Almenningar Alviðra Arnarbæli Áshildarmýri Ásólf…
Suðursveit
Suðursveit er ævintýraland sem fleiri mættu gefa gaum að en hingað til. Óvíða finnst á svæði sem aka má   gegnum á þjóðvegi á um hálftíma slík fjölbre…
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967, stækkaður 1984 og stækkaður enn 2004) og nágrenni geymir mestu náttúruperlur Íslands. Íslenskir og erlendir ferðal…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )