Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ingólfsfjörður

Ingólfsfjörður á Ströndum er u.þ.b. 8 km langur og 1½ km á breidd á milli Munaðarness og Seljaness. Úti fyrir eru sker og grynningar en fjörðurinn sjálfur er hindrunrlaus og djúpur. Lítið er um undirlendi. Kálfatindur (646m), Eyrarfell (634m) og Glissa (718m) setja mestan svip á umhverfið. Vegur liggur alla leið að Eyri um Meldal í Trékyllisvík. Ógreiðfær leið liggur áfram í fjörunni meðfram Hádegisfjalli (358m), Seljanesfjalli (364m) og Svartahnjúk inn í Ófeigsfjörð alla leið að Háareka. Þar hefja margir gönguferð til Hornstranda eða láta ferja sig að Dröngum eða lengra á vit ævintýranna.

Árið 1915 hófu Norðmenn síldarsöltun í Ingólfsfirði en fljótlega tóku íslenzkir athafnamenn við rekstrinum. Umsvifin jukust jafnt og þétt og urðu mest sumarið 1919. Þá var saltað geysimikið á mörgum stöðvum við fjörðinn. Sama haust var gífurlegt verðfall (krakkið) á afurðunum, sem gerði marga velefnaða menn að öreigum á skömmum tíma. Þráðurinn var tekinn upp árið 1930 og lítil síldarbræðsla byggð 1936/37, en atvinnurekstur var lítill fram til áranna 1942-44, þegar Ingólfur hf. reisti síldarverksmiðu á Eyri.

Lítil rækjuverksmiðja var reist nokkru síðar og rekin í nokkur ár. Þessar framkvæmdir byggðust aðallega á voninni um síldveiðarnar í Húnaflóa, sem brugðust fljótlega. Verksmiðjureksturinn var lagður niður árið 1952 og byggðin hvarf með öllu. Þarna myndaðist ekki þorp eins og á Djúpuvík, líklega vegna þess, að stórrekstur stóð fremur stutt og síldaraflinn farinn að minnka. Fólk dvelst gjarnan þar á sumrin, líkt og víðar á þessum slóðum. Eitt íbúðarhúsanna, sem stóð við Kleif í Ingólfsfirði er enn þá til. Það var upprunalega flutt inn frá Noregi (katalóghús) árið 1906 og reist á Patreksfirði, þar sem það hét Babýlon.

Árið 1917 var það flutt að Kleifastöðinni og þaðan til Reykjavíkur að ævintýrinu loknu. Það stóð við Laugaveginn, næsta hús neðan við bílastæði Stjörnubíós, þar sem er rekin sjoppa í steyptum kjallara þess.
Munaðarnes við Ingólfsfjörður, yzt við fjarðarmynnið, var þá í byggð allt árið og var nyrzta byggða bólið í Strandasýslu.

MUNAÐARNES, nyrsti sveitabær á Ströndum, fór í eyði  haustið 2005 þegar Guðmundur Jónsson, bóndi og hreppstjóri í Munaðarnesi, og Sólveig Jónsdóttir, kona hans, flytja af jörð sinni. Þau hafa búið í Munaðarnesi síðan um 1960.

Myndasafn

Í grennd

Gjögur
Gjögur er fyrrum fræg veiðistöð við mynni Reykjarfjarðar, einkum vegna hákarlaveiði á síðustu öld. En fóru oft um 15 skip til hákalaveiða samtímis. N…
Kört Trékyllisvík
Starfsemi minja- og handverkshússins Kört byggist á fjórum meginstoðum: Verndun minja, handverkssölu, upplýsingagjöf til ferðamanna og leiðsögn. Í …
Norðurfjörður
Norðurfjörður er vík norðan Trékyllisvíkur með samnefndu þorpi, þar sem standa mörg hús auð og   yfirgefin. Þarna er rekin lítil verzlun fyrir hina fá…
Sögustaðir Ströndum
Sögustaðir eru fjölmargir á Ströndum, en hér má sjá nokkra þeirra. Árneskirkja Bjarnarfjörður nyrðri Bjarnarfjörður syðri Djúpa…
Trékyllisvík
Trékyllisvík í Árneshreppi er umkringd svipmiklum fjöllum með allmiklu og grösugu undirlendi. Nafngjafi víkurinnar er sagður vera skip, sem var smíðað…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )