Ingólfsfjall (551m) í Ölfusi er hlíðabratt móbergsfjall með hraunlögum og að mestu hömrum girt. Það var sjávarhöfði í lok ísaldar, þegar sjávarstaða var sem hæst. Grafningsháls tengið það fjöllunum í Grafningi. Aldur þess er rakinn til miðrar ísaldarinnar. Norðan þjóðvegarins skagar Silfurberg, gráleit öxl út úr fjallinu, með skólesítúrfellingum og sunnan vegar er Kögunarhóll.
Nafngjafi fjallsins var landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson og hann er sagður grafinn í grágrýtishæðinni Inghóli uppi á því. Sagan segir, að hann opnist eina nótt sumar hvert og þá sé hægt að komast að dýrgripunum, sem voru grafnir með honum. Landnáma segir frá þriðju vetursetu Ingólfs að Fjallstúni við sunnanvert fjallið, er hann var á vesturleið í leit að öndvegissúlunum. Þar stóð síðar stórbýlið Fjall, sem fór í eyði á 18. öld. Minjar fyrri byggðar þar eru friðlýstar.