Hrauneyjafossstöð er þriðja stærsta raforkuver landsins, 210 MW. Hún stendur við Sprengisandsleið í jaðri hálendisins, suðvestur af Sigöldustöð og nýtir því sömu vatnsmiðlunarmöguleika og Sigöldustöð. Hrauneyjafossstöð var tekin í notkun 1981.
Tungnaá er stífluð á fremur flötu landi um 1,5 km ofan við Hrauneyjafoss og um 7 km neðan við Sigöldustöð. Hæðarmunurinn þar á milli er um 15 m. Við stífluna myndast 8,8 km² dægurmiðlunarlón; Hrauneyjalón. Fremur lágreist jarðvegsstífla teygir sig eftir hraunflákunum á suðurbakka árinnar.
Um eins kílómetra langur aðrennslisskurður liggur frá lóninu í norður um lægð í Fossöldu að inntaki við norðurbrún öldunnar. Þaðan liggja þrjár stálpípur (4,8 m í þvermál) 272 m niður hlíðina að stöðvarhúsi. Frárennslisskurður er rúmlega eins kílómetra langur og liggur út í Sporðöldukvísl sem síðan rennur í Tungnaá.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.