Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hornvík

Hornvík er milli Hornbjargs að austan og Hælavíkurbjargs að vestan og vestar er Hælavík. Látravík og Hornbjargsviti eru austan Hornbjargs. Austan Hælavíkurbjargs skilur Hvannadalur það frá Rekavíkurfjalli og úr því gengur berggangurinn Háfur í sjó. Inn af Rekavík er Hafnarfjall, þar sem farið var og er um skörðin til Jökulfjarða. Eyðibýlið Horn er austan víkurinnar í Miðdal. Utar er Yztidalur og innar Innstidalur milli Hornbjargs og Dögunarfells. Á þessum slóðum ber Kálfatinda (534m) hæst. Huldufólksbyggð er í Austmannskletti og Skipakletti. Grænanes við Hornvík austanverða er grænn blettur með klettastöndum, s.s. Steinþórsstandi, sem heitir eftir hinum fræga skessu- og hvítabjarnabana. Á undirlendinu við sjóinn eru sandar og melar og mýrlendi ofar. Hvítfyssandi lækir steypast niður brattar hlíðarnar og mynda Hafnarós. Einum degi er vel varið til skoðunarferðar um næsta nágrenni.

Fyrrum voru þrír bæir við Hornvík, Rekavík bak Höfn vestast, Höfn og Horn austast, sem fóru í eyði fyrir löngu. Fjallið Kollur er innan við Rekavík og alfaraleiðin milli bæjarins þar og Hafnar lá um Tröllaskarð í Tröllakambi, sem er 70 m hár klettur út úr fjallinu. Naust Hafnarbæjarins voru við Hafnarklett, sem er á göngulleiðinni meðfram ströndinni. Bænhús var fyrrum í Höfn og nú er þar tjaldstæði með kömrum og rennandi vatni. Bærinn Horn er á marbakka, sem myndaðist við hærri sjávarstöðu. Þar eru fallegar skvompur og grösugir stallar. Fjórði bærinn á þessum slóðum var byggður (1904) í hlíðinni undir Jörundi, þar sem heitir Baldvinshlein (Baldvin Sigfússon).

Gönguleiðir: Rekavík bak Höfn í Hvannadal um brattar hlíðar Rekavíkurfjalls. Þaðan er leið um Atlaskarð til Hælavíkur, um Skálakamb til Hlöðuvíkur og á Hælavíkurbjarg. Einnig er hægt að ganga beint upp í Atlaskarð frá bænum.

Frá Höfn er gengið um Hafnarskarð í botn Veiðileysufjarðar. Gengið er upp með Hafnarósi um Kýrskarð til Hornbjargsvita við Látravík. Frá Horni er gönguleið út í Yztadal og þaðan er hægt að ganga á bjargbrúninni yfir Miðfell og síðan ofarlega í hlíðum Miðdals undir Jörundi á Kálfatinda.

Myndasafn

Í grennd

Hælavíkurbjarg
Hælavíkurbjarg (258m) er fuglabjarg á milli Hælavíkur og Hornvíkur. Það var nefnt eftir stökum í sjó framan bjargsins. Undir bjarginu er svokölluð He…
Hlöðuvík
Á milli Kjalárnúps í Almenningum vestari og Hælavíkurbjargs liggja þrjár víkur, Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík. Þær eru kallaðar einu nafni Víkurnar.…
Lónafjörður
Lónafjörður á milli Hrafnsfjarðar og Veiðileysufjarðar og Lónanúps og Múla. Hann er þröngur og sólin bræðir vetrarsnjóinn ekki fyrr en komið er vel fr…
Rekavíkurvatn
 Rekavíkurvatn er í Sléttuhreppi í N.-Ísafjarðarsýslu. Það er 1,6 km², nokkuð djúpt og í 1 m hæð yfir sjó. Við suðausturenda þess er Hálsavatn og Skam…
Smiðjuvík
Smiðjuvík er milli Smiðjuvíkurbjarga að norðvestan og Barðs að suðaustan. Nafn hennar er dregið af sögnum um smiðju Barða landnámsmanns í Barðsvík. Up…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )