HOLTAVÖRÐUHEIÐI
Holtavörðuheiði (407m) liggur á milli Norðurárdals (Tröllakirkja/Snjófjöll) og Hrútafjarðar (heiðar vestan Tvídægru). Varða til minningar um heimsókn Danakonungs 1936 með fangamarki konungs var hlaðin til minningar um þennan atburð norðarlega á heiðinni. Vegurinn var endurbyggður frá árinu 1976 og var víða fluttur austar á heiðina og nýtt sæluhús byggt (fjarlægt 2001). Árið 1831 varðaði Fjallvegafélagið heiðina. Hún var löngum stytzta og fjölfarnasta leiðin milli byggða og þar varð fólk oft úti í slæmum vetrarveðrum. Sunnan heiðar var Fornihvammur lengi veitinga- og gististaður. Þar reisti Fjallvegafélagið sæluhús 1831 og áratug síðar hófst þar búskapur. Norðan heiðar gegndi Grænumýrartunga svipuðu hlutverki, þar til Brú og Staðarskáli tóku við því. Nú eru allir þessir staðir horfnir og/eða hættir, nema Staðarskáli, sem stendur nýr við nýjan veg um leirur Hrútafjarðar (2008).
Miklagil með samnefndri á er á norðanverðri heiðinni. Vatn rennur um gilið frá Tröllakirkju og skammt neðan brúar eru klettadrangur og foss, sem báðir heita Jörundur. Gilið var mikill farartálmi áður en það var brúað og um það rennur mikið vatn í vorleysingum.