Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hóladómkirkja

Hóladómkirkja er í Hólaprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Prestur sat á Hólum eftir að var lagður  niður, til 1861. Þá var Hofsstaðasókn lögð til Hóla en Viðvík gerð að prestsetri og prestakallið nefnt Viðvíkurprestakall. Síðasti prestur á Hólum á síðustu öld var séra Benedikt Vigfússon (1797-1868). Séra Benedikt var góður búhöldur og stórefnaður. Hann reisti bæ árið 1854, sem stendur enn þá. Hann er friðlýstur og í umsjá Þjóðminjasafnsins. Árið 1952 voru Hólar gerðir að prestssetri að nýju og eru útkirkjur á Ríp og Viðvík. Hólar munu hafa byggzt úr landi Hofs. Ekki komu þeir við Íslendingasögur, en um miðja 11. öld bjó þar maður að nafni Oxi Hjaltason og lét hann gera kirkju mikla á staðnum.

Um 1100 átti Illugi Bjarnason prestur jörðina. Þá var ákveðið, að biskupsstóll skyldi settur á Norðurlandi, en enginn vildi standa upp af föðurleifð sinni fyrr en Illugi varð til þess að gefa Hóla til biskupsseturs. Gerði hann það „fyrir guðs sakir og nauðsynja heilagrar kirkju”, segir í Jónssögu helga. Hólar voru biskupssetur um 7 alda skeið, á árunum 1106-1798, og raunverulegur höfuðstaður Norðurlands á þeim tíma. Skóli var þar löngum samtímis biskupssetrinu en hann var lagður niður 1802. Hólar eru vígslubiskupssetur. Dómkirkjan á Hólum, sú sem nú stendur, var reist á dögum Gísla biskups Magnússonar. Hann hafði mikinn áhuga á að reisa Hólastað úr þeirri niðurlægingu, sem hann var þá í. Til að afla fjár til byggingarinnar var lagt gjald á allar kirkjur í Danmörku og Noregi og síðar tekin upp almenn fjársöfnun í þessum löndum, er sýnt var, að Hólastóll yrði lítt aflögufær vegna harðinda.

Þekktur, danskur arkitekt, Lauritz de Thurah, tekinaði kirkjuna en þýzkur múrmeistari, Sabinsky, stóð fyrir byggingunni og hófust framkvæmdir 1757. Byggingarefni, sem er sandsteinn og blágrýti, var sótt í Hólabyrðu og var verkamönnum fyrst greitt kaup en síðar voru bændur í Skagafirði, Eyjafirði og Húnaþingi skyldaðir til þess að vinna kauplaust við bygginguna og mæltist það illa fyrir. Árið 1760 kom annar múrmeistari, Schätzer, til að vinna að kirkjunni en timbursveinn að nafni Christen Willumsøn sá um tréverk. Kirkjan átti að heita fullgerð haustið 1763 og var vígð með mikilli viðhöfn hinn 20 nóvember það ár. Allmikið vantaði þó á að frá henni væri gengið eins og ætlað var í upphafi. Turn var aldrei reistur, ekki var sett söngloft í kirkjuna og timburþak var af vanefnum gert í stað steinþaks. Það lak þegar mjög og var þá sett annað timburþak yfir, sem dugði uns bárujárnsþak var sett á kirkjuna 1886. Jóni Arasyni, biskupi, og sonum hans var reistur minnisvarði á Hólum, sem var vígður á 400 ára dánarafmæli hans, árið 1950. Það er 27 m hárturn við dómkirkjuna. Í turninum er lítil kapella með grafhýsi, sem varðveitir bein þeirra að því er talið er. Annar minnisvarði um Jón er í Skálholti og hinn þriðji á Munkaþverá. Þá er minningarlundur Jóns í landi Grýtu í Eyjafirði, sem talin er fæðingarstaður hans.

Árið 1881 keypti Skagafjarðarsýsla Hóla og 1882 var stofnaður þar búnaðarskóli. Stóðu Skagfirðingar einir að honum fyrsta árið en næsta ár gengu Húnvetningar í lið með þeim og frá 1889 átti allt Norðuramtið aðild að skólanum og hafði staðarforráð til 1905 en þá var ákveðið með lögum að ríkissjóður tæki að sér skólann og skólabúið. Svo hefur verið síðan, eða þar til fyrir nokkrum árum, að skólastarfið var einskorðað við hestarækt og hestamennsku. Í tengslum við bændaskólann var tilraunabú í sauðfjárrækt og einnig hrossaræktarbú, sem Búnaðarfélagið styrkti og hafði umsjón með. Fiskibúið Hólalax hf. var stofnað 1980. Að því eiga aðild veiðifélög á öllu Norðurlandi og einnig í Strandasýslu en ríkissjóður á einnig allmikill hluta og er gert ráð fyrir, að við skólann verði eflt nám í fiskeldisfræðum. Stór fiskeldisstöð er við Hjaltadalsá, niður undan Hofi. Þaðan eiga að fást 200 þúsund seiði á ári og auk þess er kennsluaðstaða í stöðinni. Heitt vatn var leitt þangað frá Reykjum árið 1980 en 1981 var það leitt til Hóla.

Á Hólum í Hjaltadal er talið að fyrst hafi verið byggð kirkja um 1050. Sá er hana lét byggja var Oxi Hjaltason, barnabarn Hjalta Þórðarsonar er nam Hjaltadal og bjó á Hofi. Sagt er að sú kirkja hafi verið stærst á öllu Íslandi. Oxi hefur sennilega haft í huga það sem menn héldu í upphafi kristni, að sá sem byggði kirkju myndi hafa yfir að ráða jafn mörgum í himnaríki og staðið gætu á kirkjugólfinu.

Heimildum ber saman um að Oxi hafi ekkert til sparað og kirkjan hafi átt margar gersemar og verið öll þakin blýi að innan. Svo illa fór fyrir þessari ríkulega búnu kirkju að hún brann með öllum sínum gersemum.

Aftur var byggð kirkja á Hólum, en litlar frásagnir voru um hana fyrr en Norðlendingar báðu Skálholtsbiskup um að stofna biskupsembætti fyrir Norðlendingafjórðung. Báru þeir það fyrir sig að fjórðungurinn væri bæði stór og fjölmennur og langt væri fyrir Skálholtsbiskup að sinna þeim. Einnig væri nauðsynlegt að hafa tvo biskupa í landinu, því minni líkur væru þá á að landið yrði nokkurn tíma biskupslaust.

Gissur biskup Ísleifsson, sem þá var Skálholtsbiskup, bar þetta mál undir vitra menn og voru þeir sammála um að það yrði kristninni í landinu til styrktar að hafa tvo biskupa.

Þá var komið að því að finna einhvern höfðingja í Norðlendingafjórðungi sem var tilbúinn að gefa höfuðból sitt og láta það undir biskupsstólinn. Margar kostamiklar jarðir voru í fjórðungnum og hvergi fleiri en í Skagafirði. Vel hefðu þær hæft sem biskupssetur Reynistaður, Glaumbær, Flugumýri eða Stóru-Akrar, allar vel í sveit settar, en höfðingjarnir sátu sem fastast, þrátt fyrir margar ráðstefnur.

Þá var það að á Hólum í Hjaltadal bjó prestur að nafni Illugi Bjarnason, hann var barnabarn Oxa Hjaltasonar, þess er fyrstur byggði kirkju þar. Illugi, einn af mögum höfðingjum í Norðlendingafjórðungi, var reiðubúinn til þessa að standa upp af föður-arfleifð sinni og bjóða hana undir biskupsstól.

Til biskups á Hólum var kjörinn Jón Ögmundsson sem verið hafði prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Þetta var árið 1106 og var Jón þá 54 ára gamall. Eftir vígsluna fór Jón utan, fyrst suður til Rómar að fá samþykki páfans og þaðan að Lundi til að fá blessun erkibiskupsins yfir Norðurlöndum. Að þeim blessunum loknum fór Jón til Noregs að sýsla sér kirkjuvið, eins og sagt er í biskupasögu. Nú skyldi byggð dómkirkja og ekkert til sparað.

Timbrinu í kirkjuna var skipað upp á Eyrarbakka og drógu Sunnlendingar viðinn upp í Hvinverjadal, en þangað sóttu Norðlendingar hann og drógu til Hóla. Jón lét rífa kirkju þá er Illugi hafði byggt og reisti mikla og virðulega dómkirkju, vígði hana og blessaði og helgaði Guði og sælli Maríu mey.

Í kaþólskum sið voru reistar þrjár dómkirkjur á Hólum. Fyrst var áður nefnd kirkja Jóns Ögmundssonar. Sú kirkja var orðin léleg þegar Jörundur Þorsteinsson varð biskup árið 1267 og um 1300 lét hann byggja nýja timburkirkju gerða af þremur hlutum, framkirkju, kór og stöpli og prýdd mörgum fágætum gersemum. Jörundarkirkja stóð í tæp hundrað ár, en hún fauk á jólunum árið 1394 í miklu ofviðri svo hvert tré brotnaði og varð þar engu bjargað nema líkneskjum og helgum dómum.

Að Jörundi biskupi látnum tók við biskupsembættinu norskur maður, Auðunn rauði Þorbergsson sem var biskup á árunum 1313 til 1322. Hann byrjaði að láta brjóta berg úr fjallinu til að hlaða kirkju úr steini, en honum entist ekki aldur til að ljúka verkinu, þannig að þeirri kirkju var aldrei lokið, en grjótið var notað síðar í kirkjuna sem nú stendur á Hólum.

Síðasta kirkjubygging á Hólastað fyrir siðaskiptin 1550 var kirkja Péturs biskups Nikulássonar sem var danskur maður. Hann var biskup á árunum 1391 til 1411. Hann lét byggja timburkirkju með framkirkju, kór og stöpli og tveimur stúkum, hvorri á sinni framhliðinni, skrúðhúsi og kapellu. Á Péturskirkju voru 38 glergluggar og hefur hún verið veglegasta dómkirkjan sem byggð hefur var á Hólastað og með stærstu timburkirkjum í Evrópu á þeim tíma. Þessi kirkja stóð í 229 ár og fauk í fárvirði árið1624.

Eignir Hólakirkju jukust fljótt og varð kirkjan brátt stórauðug af löndum og lausafé. Eignaskrá upp á margar blaðsíður er til frá Hólum og ekki er nokkur leið að gera henni skil hér. Fastar tekjur voru af kirkjutíundinni og afgjöld af leigujörðum, einnig urðu margir til að gefa kirkjunni bæði jarðir og góða gripi í próventugjafir, áheiti fyrir að syngja sálumessur fyrir sig og sína. Einnig innheimti kirkjan ýmsar sektir og gerði eignir manna upptækar ef þeir höfðu brotið af sér gegn Guði eða kirkjunni, að dómi biskupanna.

Um siðaskiptin eru jarðeignir Hólastóls farnar að skipta hundruðum og rekaréttur staðarins náði yfir mest allar fjörur í fjórðungnum. Eignir Hólastóls voru talsvert meiri en Skálholts, þrátt fyrir að Skálholt hefði yfir að ráða þremur fjórðu af landinu. Hólastaður þurfti líka mikið til að fæða og klæða alla þá sem á staðnum voru, vinnumenn og vinnukonur, presta, skólasveina, gesti og gangandi.

Hólar var miðstöð kristninnar í fjórðungnum. Fólk tók trúna mjög alvarlega í kaþólskum sið. Það fór í kirkju í hvert sinn sem messað var til að tigna guð sinn, ákalla dýrlingana og biðjast fyrir sér til sáluhjálpar. Hugsunarháttur manna á miðöldum var svo gerólíkur hugsunarhætti manna nú á dögum. Þarfir kaþólskra voru í aðalatriðum tvær, að gera guð dýrðlegan og sjá fyrir brýnustu þörfum sínum.

Margir munir hafa varðveist á söfnum bæði hérlendis og erlendis frá kaþólskri tíð á Hólum. Má þar nefna stólu, handlín og hluta höfuðlíns sem talið er vera frá því um 1200. Það er fagurlega útsaumað með gullþræði í rautt silki. Einnig er á Þjóðminjasafninu kantarakápa Jóns Arasonar. Í kirkjunni sjálfri eru enn margir hlutir frá því í kaþólskum sið eins og altaristaflan sem Jón Arason keypti fyrir kirkjuna, alabasturs altarisbrík sem talin er vera frá því um 1470, róðukross sem talinn er frá fyrri hluta 16. aldar og kaleikur og patína frá 13. öld.

Biskupsstóllinn á Hólum hefur skipað ríkan sess í hugum Norðlendinga í gegnum aldirnar og orðtakið sem varð til í biskupstíð Guðmundar Arasonar, „heim að Hólum”, hefur haldist síðan, þótt liðin séu 800 hundruð ár frá því að hann var biskup þar.

Myndasafn

Í grennd

Hofsós
Hofsós er lítið og vinalegt þorp við austanverðan Skagafjörð, tiltölulega stutt frá Sauðárkróki. Hofsós á að baki 400 ára sögu verslunar og viðskipta …
Hólar í Hjaltadal
Skólasetur og kirkjustaður í Hjaltadal. Um 1100 átti Illugi Bjarnason prestur jörðina. Þá var ákveðið, að  biskupsstóll skyldi settur á Norðurlandi, e…
Kirkjur á hringveginum
Kirkjur á Hringveginum á 6 Dögum Fyrstu árin eftir að hringvegurinn var opnaður (1974) kepptist fólk um að setja hraðamet eða aka aftur á bak allan h…
Kirkjur á Norðurlandi
Listi yfir flestar kirkjur í landshlutanum Akureyrarkirkja …
Laufskálarétt
Laufskálarétt í Hjaltadal er meðal vinsælustu stóðrétta landsins. Hana sækja næstum þrjú þúsund gestir  árlega síðustu helgina í september. Venjulega …
Sauðárkrókur
Sauðárkrókur er kaupstaður innst í Skagafirði vestanverðum. Þar er blómleg útgerð og fiskvinnsla og öflug þjónusta við nágrannasveitir. Ferðaþjónusta …
Varmahlíð, Skagafjörður
Þegar ekið er niður þjóðveg 1 til austurs um Stóra-Vatnsskarð er komið í Varmahlíð í hlíðum Reykjarhóls. Þar er upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn. Ja…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )