Höfði í Reykjavík
Upphafið að Höfða má rekja til franskra sjómanna og veiða þeirra um aldamótin við Íslandsstrendur, heimalandinu. Þeim til trausts og halds var sendur til Íslands franskur konsúll, Brillouin að nafni, og fengin var lóð undir hús handa honum á svonefndu Félagstúni, en það var áður í landi Rauðarár. Rauðará var í eigu Viðeyjarklausturs laust fyrir aldamótin 1400 en varð konungseign um siðaskiptin. Rauðará var lögð undir Reykjavíkurkaupstað árið 1835 en bæjarstjórnin keypti svo jörðina um 1885. Á Rauðará bjó um miðja 18. öld Oddur Jónsson Hjaltalín lögréttumaður (1897) en hann var sonur Jóns Hjaltalíns Oddssonar lögsagnara og sýslumanns ( 1753) en Jón var síðasti ábúandinn á jörðinni í Reykjavík.
RÉPUBLIQUE FRANCAISE. Húsið var keypt tilhöggvið frá Noregi og reist árið 1909. Það ber ýmissmerki uppruna síns, m.a. er að finna upphafsstafi franska lýðveldisins RF – République Francaise – yfir dyrum, svo og nafn konsúlsins Brillouin – anno 1909. Þar eru einnig hinir rómversku vendir, fasces, með tveimur ístungnum öxum, tákn þess, að rómverskir embættismenn máttu bæði hýða og hálshöggva. Frýgíska húfan, bonnet rouge, einkennishöfuð- fat jakobínanna í frönsku stjórnarbyltingunni 1789 prýðir einnig dyrabúnaðinn. Húsið var með stærstu einbýlishúsum bæjarins og stóð nokkru austan aðalbyggðarinnar. Það þótti strax afar tilkomumikið og fallegt. Ekki dugði það þó til þess að létta franska konsúlnum lífið, því að hann átti ekki skap viðÍslendinga og lenti í ýmsum útistöðum við þá. Við upphaf heimsstyrjaldarinnar fyrri flutti hann svo af landi brott og húsið var selt.
SKÁLDIÐ GERÐI STUTTAN STANZ. Kaupandinn var Einar Benediktsson, skáld og lögfræðingur, en hann hafði áður falazt eftir landi á þessum slóðum. Það var jarðarparturinn Fúlatjörn, sem Daníel Halldórsson bæjarfógeti átti. Þegar samningar voru um það bil að takast um Fúlutjörn og aðeins átti eftir að skrifa undir, sagði Einar: Þetta er eiginlega afleitt nafn, Fúlatjörn. Það verður að slá af verði á jörð með svona ljótu nafni.“ Við það fyrtist Halldór og sagði: Jæja, við skulum þá láta það vera að skrifa undir.“ Og þar við sat. Ekki fer neinum sögum af því, hvort Einar Benediktsson fór fram á afslátt út á konsúlshúsið, en hann kallaði það Héðinshöfða eftir samnefndum bæ á Tjörnesi í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem hann ólst upp frá tíu ára aldri. Í Héðinshöfða bjó einar aðeins skamma hríð ásamt Valgerði konu sinni en fluttist þaðan til Lundúna. Árið 1915 varð stórbruni í Reykjavík og brann meðal annarra húsa Hótel Ísland. Móðir Valgerðar, konu Einars, missti þar allt sitt og flutti til þeirra hjóna í Héðinshöfða og bjó þar um tíma eftir að fjölskyldan fluttist til Englands haustið 1915.
LÆKNIR OG LISTMÁLARI. Árið 1919 tók bæjarstjórn Höfða að leigunámi handa Páli Einarssyni dómara í hæstarétti en hann var þá að flytja með stóra fjölskyldu frá Akureyri. Páll Einarsson hafði verið fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur árin 1908-1914. Árið 1924 eignaðist Matthías Einarsson, yfirlæknir við Landsspítalann, Höfða og bjó þar ásamt fjölskyldu sinni til ársins 1938. Þá leigði hann brezka ríkinu húsið og seldi því síðan hús og lóð árið 1942. Dóttir Matthíasar er Lovísa listmálari. Í Höfða hangir enn þá eitt málverka hennar. Þegar í tíð Matthíasar var nafn hússins stytt og það kallað Höfði. Sú nafngift hefurð haldizt. Höfði var síðan aðsetur brezka aðalræðismannsins og síðar sendiherrans fram til 1951. Á þessum brezku tímum kom margt góðra gesta í Höfða. Frægasti gesturinn er trúlega Sir Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, en hann kom til Reykjavíkur í ágúst 1941 eftir fund með Roosevelt Bandaríkjaforseta. Þeir höfðu þá gengið frá Atlantshafsyfirlýsingunni, sem kalla má grundvöllinn að stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Önnur fræg persóna, sem var gestur í Höfða á þessum árum var Marlene Dietriech.
THE WHITE LADY. Síðasti breski sendiherrann, sem bjó í Höfða var einhleypur og þótti nokkuð undarlegur í háttum. Daglega sá hann veru, sem ekki var af þessum heimi, á sveimi í húsinu. Hann kallaði hana hvítu konuna eða The White Lady“. Þar kom að hann þoldi ekki við lengur og fékk því framgengt, að húsið var selt, þar sem ekki væri vært í því fyrir draugagangi.
Stórstúka Íslands keypti Höfða af brezka ríkinu en vildi svo hætta við. Ingólfur Espólín, fram-kvæmdastjóri, kunnur brautryðjandi á sviði hraðfrystiiðnaðar, gekk inn í kaupin árið 1952 og bjó í Höfða til ársins 1962. Ingólfur notaði húsið einnig til verksmiðjureksturs og Halldór Laxness skýrði eitt sinn frá því í Höfða, að einmitt þar hefði hann hugsað sér, að leikrit hans, Prjónastofan sólin, gerðist. Borgarsjóður keypti Höfða af Ingólfi árið 1968 og í fyrstu var ráðgert að rífa húsið. Ætlunin var að bora eftir heitu vatni á lóðinni og þar voru á þessum árum boraðar tvær holur, sem nýttar voru í mörg ár. Á árunum upp úr 1960 var húsið svo notað sem bækistöð við umfangsmikla vinnu við gerð aðalskipulags fyrir Reykjavík.
GERT UPP Á LAUN. Sagt er, að Gústaf A. Pálsson, sem var þá borgarverkfræðingur, hafi stolizt til að fara að gera við húsið án þess, að nokkur fjárveiting væri til og án þess að láta nokkurn mann vita. Þegar verkinu var nánast lokið, hafi hann boðið borgarstjóra að koma og líta á. Sá hafi orðið yfir sig hrifinn og upp úr því hafi verið ákveðið að nota Höfða fyrir gestamóttökur og fundarhöld á vegum Reykjavíkurborgar. Þannig hefur húsið svo verið nýtt frá árini 1967. Á vegum borgarinnar hafa komið þangað þúsundir gesta, m.a.þjóðhöfðingjarnir Margrét Þórhildur Danadrottning, Ólafur V. Noregskonungur, Elísabet Englandsdrottning, Mitterand Frakklandsforseti, Cossica fyrrum Ítalíuforseti, Havel þáverandi forseti Tékkóslóvakíu, Gro Harlem Bruntland forsætisráðherra Noregs, Ingvar Carlsson forsætisráðherra Svíþjóðar, Willy Brandt fyrrverandi kanslari Vestur-Þýzkalands o.fl.
HEIMSFRÆGÐ. Þekktustu gestir Höfða eru þó án vafa þeir Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjov, sem hittust þar árið 1986 (10.-ll. okt.) á leiðtogafundinum margfræga. Óhætt er að fullyrða, að húsið öðlaðist heimfrægð við þann fund og þótt hann virtist í fyrstu skila takmörkuðum árangri hefur mönnum síðan orðið æ ljósara, að hann var upphafið að lokum kalda stríðsins. Höfði er síðan orðinn fastur viðkomustaður erlendra ferðamanna og aðdáun manna á húsinu ku hafa orðið svo mikil, að einn þeirra, japanskur auðjöfur, byggði sér nákvæma eftirlíkingu þess í heimalandi sínu.
DRAUGAR ÆTTFÆRÐIR. Hvað drauga varðar, hafa menn reynt að henda reiður á uppruna þeirra og nærveru í Höfða. Ýmsir vilja tengja reimleikana við Einar Benediktsson skáld og atburði úr fortíð hans, en haft er fyrir satt, að honum fylgdi einhver vera, sem hulin væri sjónum venjulegs fólks. Páll Einarsson, sem flutti í húsið á eftir Einari var mikill áhugamaður um spíritisma. Hann mun þó einskis hafa orðið var á sínum árum í Höfða. Það er í reynd fyrst um 1950, sem hvíta konan“ fór að gera vart við sig fyrir alvöru en síðan hafa ýmsir þótzt sjá torkennilegar verur á sveimi í Höfða. Þeir, sem búa ekki yfir neinum dulargáfum, verða að láta sér nægja að horfa á listaverk Sigurjóns Ólafssonar, Öndvegissúlurnar (Súlurnar) framan við Höfða en þær kallaði hann stundum í spaugi Draugana í Höfða“.
STÚLKUKLETTAR. Þeir, sem eru næmir ættu e.t.v. að ganga fram á klettana sjávarmegin við Höfða og velta fyrir sér örnefninu Stúlkuklettur eða Stúlkuklettar, sem þar er að finna samkvæmt fyrsta íslenzka sjókortinu (1788) og byggt var á athugunum Minors nokkru áður. Og hver veit nema enn þá bergmáli um loftin blá fyrstu loftskeytin, sem bárust til Íslands erlendis frá, en einmitt hér við Höfða reisti Marconifélagið fyrstu stangirnar til móttöku slíkra skeyta árið 1905.
Af ofangreindu má sjá, að saga Höfða er orðin löng og litskrúðug. Þar hafa skáld og skútusjómenn, kóngar og konsúlar, drottningar og draugar, læknar og lögfræðingar, forsetar og framkvæmdamenn gengið um gættir.
BYGGINGARSTÍLL. Höfði er einlyft hús með brotnu (mansard) þaki og kjallara. Þar var lengi vel eitt stærsta einbýlishús Reykjavíkur. Það er norskt „katalóghús” í jugendstíl, keypt tilsniðið frá Noregi. Þessi stíll var allsráðandi í Evrópu allri á árunum milli 1890-1910. Þetta var nokkurs konar andsvar við vélvæðingu samtímans og áherzla var lögð á náttúruleg form, birtu og ljósa liti. Höfði var friðaður skv. þjóðminjalögum af Reykjavíkurborg árið 1978 en friðunin tekur til ytra byrðis hússins.
Hinn 25. september 2009, rétt fyrir kl. 17:00, brauzt út eldur undir þakskeggi hússins og loga og reyk lagði undan því. Slökkviliðinu tókst að koma í veg fyrir stórtjón og slökkti eldinn fyrir kl. 19:00. Húsið var opið almenningi þennan dag og næstu daga átti það að vera opið vegna aldarafmælis þess.
Upplýsingar frá Reykjavíkurborg og nat.is ferðast og fræðast.