Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

HEIÐAR AUSTURLANDS

Heiðavegur

Helstu heiðar á Austurlandi

JÖKULDALSHEIÐI
Jökuldalsheiði er víðast í nánd við 500 m yfir sjó og er u.þ.b. 60 km löng á milli Þríhyrningsfjallgarðar, Möðrudalsfjallgarðar, Þjóðfells og Súlendna að vestan og hábrúna Jökuldals með ýmsum hnúkum að austan. Þar eru berar melöldur, fjöldi vatna, flóar og votlendi, vaxin broki, ljósastör og loð- og grávíði.

Um og eftir miðja 19. öld var mikil byggð á heiðinni. Þar bjó fólk, sem vildi vera sjálfbjarga en hafði ekki efni á að stofna til búskapar annars staðar. Öskjugosið 1875 lagði byggðina á heiðinni að mestu í eyði og margt fólk, sem flosnaði upp fluttist til Vesturheims. Halldór Laxness mun hafa fengið margar hugmyndir að skáldsögu sinni „Sjálfstætt fólk” af kynnum sínum við síðustu ábúendur þar. Gunnar Gunnarsson skrifaði skáldsöguna „Heiðarharmur”, sem lýsir lífi fólksins á Jökuldalsheiði vel. Jón Trausti skrifaði „Halla og heiðarbýlið”.

Háreksstaðir eru eyðibýli á Jökuldalsheiði. Þeir voru fyrsta býlið, sem byggt var á 19. öldinni, árið 1841, og jafnframt eitt hið bezta. Það var í byggð til 1925 og sagnir eru til um ábúð þar fyrr á öldum. Þjóðvegur # 1 var færður norður frá Möðrudalsfjallgarð, þannig að nú liggur hann um fyrrum Vopnafjarðarleið, skammt austan Vegskarðs, um Hárekstaðaland og niður í Jökuldal á sama stað og fyrrum. Þessi vegagerð var og er mjög umdeild. Hún færir Vopnfirðinga og aðra Sléttubúa nær Egilsstöðum á veturna en margir eru þeirrar skoðunar, að hann liggi um mun snjóþyngra svæði en gamli þjóðvegurinn. Nýr vegur aðeins sunnar í Möðrudalsfjallgarðinum um náttúruleg skörð þar hefði verið betri, ódýrari og enn snjóléttari en hinn gamli. Vopnfirðingar hafa löngum viljað fá göng undir Hellisheiði til Héraðs, sem spöruðu tugi kílómetra.

ÖXARFJARÐARHEIÐI
Öxarfjarðarheiði (540m). Leiðin um Öxafjarðarheiði liggur á milli Sandfellshaga í Öxarfirði og Þórshafnar á Langanesi (Svalbarðshrepps). Vegamót leiðarinnar fyrir Melrakkasléttu eru við kirkjustaðinn Svalbarð.

HELKUNDUHEIÐI
Heiðasvæðið milli Þistilfjarðar og Langanesstrandar bar þetta nafn fyrrum. Nú er því aðallega skipt í Hallgilsstaða- og Brekknaheiðar. Helkunduheiði var mörk milli biskupsdæma og fjórðunga. Þessi heiðaflæmi eru hvergi hærri en 200 m.y.s. og þjóðvegurinn um þau hæstur 160 m.

SANDVÍKURHEIÐI
Sandvíkurheiði (275m) liggur milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar. Hún er þakin fjölda vatna og lágum jökulöldum. Hún er gróin og mýrlend. Vestan hennar eru Hágangar. Akvegurinn milli Vopnafjarðar og Langanesstrandar liggur um hana.

VOPNAFJARÐARHEIÐI
Vopnafjarðarheiði er aðalleiðin frá hringveginum um Háreksstaðaleið til Vopnafjarðar. Á heiðinni eru víða rústir eyðibýla. Löngum hafa Vopnfirðingar lýst löngun sinni til jarðganga undir Hellisheiði, sem styttu leiðina til Egilsstaða um tugi kílómetra.

SMJÖRVATNSHEIÐI
er hálent heiðaflæmi milli Jökuldals og Vopnafjarðar norðan Smjörfjalla, suðvestur að Sandfelli. Víða eru torfær urðarsvæði. Afrétturin skiptist milli Jökuldals og Vopnafjarðar. Hlutar heiðarinnar bera nöfn bæja, sem eiga beitarrétt og Smjörvötn eru um heiðina miðja, þar sem er einnig sæluhús. Þarna liggur leið milli Hnappavalla í Vopnafirði og Fossvalla eða Hofteigs í Jökulsárhlíð, 38 km löng og hæst 750 m.y.s. Heiðin er snjóþung og veðrasöm.

HELLISHEIÐI
Hellisheiði liggur hæst 656 m á leiðinni milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar. Miklar vegabætur fóru þar fram skömmu fyrir aldamótin 2000. Sé komið að norðan, er ekið um Böðvarsdal hjá Dallandi og komið niður hjá Ketilsstöðum, sem er yzti bær í Jökulsárhlíð. Leiðin er brött báðum megin, þó brattari norðan megin. Þarna hefur einungis verið sumarvegur, en komið hefur fyrir, að vegurinn hafi verið ruddur eftir vegabæturnar. Það er geysivíðsýnt af austurbrún heiðarinnar á góðum degi, þegar Hérað blasir við. Efsta brekkan í suðurheiðinni heitir Fönn, enda leysir þar sjaldnast snjó með öllu á sumrin. Þegar það gerist, boða þau náttúruundur mjög harðan vetur.

VATNSSKARÐ
Um Vatnsskarð (431m) liggur sumarfjallvegur milli Njarðvíkur, Borgarfjarðar eystra og Fljótsdalshéraðs. Brött leiðin upp í skarðið liggur frá Unaósi og niður í Njarðvík. Það er á milli Sönghofsfjalls og Geldingafjalls og nafnið fær það af stöðuvatni uppi í háskarðinu. Vegabætur voru talsverðar í kringum aldamótin 2000 og geysivíðsýnt er úr skarðinu yfir Fljótdalshérað á góðum degi.

FJARÐARHEIÐI
Fjarðarheiði (620m) er 22 km langur sumarfjallvegur milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar. Hún er brött að austan, þar sem vegurinn liggur í kröppum sneiðingum niður í kauptúnið. Þarna eru mikil snjóþyngsli á veturna og stundum er gripið til snjóbíla til að annast samgöngur. Útsýni af heiðinni er afbragðsgott í góðu veðri.

VESTDALSHEIÐI
liggur milli Vestdals við Seyðisfjörð og Gilsárdals í Eyðaþinghá. Úthérðasmenn notuðu hana mikið til kaupstaðarferða í Seyðisfjörð. Úr Vestdalsvatni á heiðinni rennur Gilsá til Fljótdalshéraðs. Eyðibýlið (síðan 1928)

Vestdalur var í þjóðbraut upp af verzlunarstaðnum Vestdalseyri, þar sem reis þorp á síðari hluta 19. aldar, þar sem fólk lifði af verzlun, smábúskap og sjósókn. Hagur þess vænkaðist, þegar Gránufélagið hóf þar starfsemi aðalbækistöðvar sinnar á Austurlandi 1872. Kirkja sóknarinnar var flutt þangað frá Dvergasteini 1862, en hún fauk 1884, var endurreist og stóð til 1922. Þá var ný sóknarkirkja reist á Fjarðaröldu, að hluta úr viðum hinnar gömlu. Á Vestdalseyri var barnaskóli, samkomuhúsið Glaðheimar og mörg íbúðarhús. Þorpið fór endanlega í eyði 1963.

FLJÓTDALSHEIÐI
Fljótsdalsheiði er á milli Jökuldals og Fljótdals. Hún er allvíðáttumikil og gróin. Jeppavegur liggur milli Bessastaða í Fljótsdal og Klaustursels í Jöluldal og Landsvirkjun hefur staðið fyrir vegabótum og veglangningu í tengslum við rannsóknir og virkjanaframkvæmdir á Eyjabökkum og Kárahnjúkum.

VESTURÖRÆFI
Vesturöræfi eru vestan Snæfells, austan Jökulsár á Brú og sunnan Hrafnkelsdals. Að sunnan markast þau af Vatnajökli. Þau eru allvel gróin og sums staðar mýrlend og að mestu í 600-700 m hæð yfir sjó. Þau státa af því, að vera meðal mestu hreindýraslóða landsins og austas á þeim, við rætur Snæfells austanverðs, er Snæfellsskáli Ferðafélagsins. Tvær ökuleiðir liggja að þeim, upp úr Hrafnkelsdal og Fljótsdal. Fljótsdalsleiðin var lögð vegna rannsókna á svæðinu í tengslum við fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda og er sú leið þægilegri en leiðin upp úr Hrafnkelsdal. Eftir að virkjunarframkvæmdum lauk, opnaðist leið til vesturs yfir Jökulsá til Brúaröræfa og þaðan enn vestar.

BRÚARÖRÆFI
Brúaröræfi markast af Brúarjökli í suðri, Kreppu í vestri, Jökulsá á brú í austri og Möðrudalslandi að norðan. Landið hækkar úr 500 m í norðri í 700 m næst jökli. Landið er fremur flatt en þó öldótt á köflum og nokkur fell prýða það. Gróður er af skornum skammti vestan til en gróðurlendi er nokkuð samfellt með Jöklu inn í Kringilsárrana. Norðurhluti öræfanna varð illa úti í Öskjugosinu 1875. Um Brúaröræfi hlykkjast vegaslóðar frá Brú, Jökuldalsheiði og Möðrudal langleiðis suður að jökli, um fornar eyðibyggðir og hreindýraslóðir.

BREIÐDALSHEIÐI
Breiðdalsheiði (441m) er sumarfær fjallvegur, aðalþjóðvegurinn, milli Skriðdals og Breiðdals. Efst á henni er lítið og fallegt stöðuvatn. Þarna eins og víðar á Austfjörðum má búast við að koma auga á hreindýr á leiðinni.

Öxi
Öxi (532m) er 20 km langur sumarfjallvegur milli Breiðdalsheiðar (Skriðdals) og Berufjarðar. Hann er brattur upp úr og niður í Berufjörðinn og stundum er þokuslæðingur á heiðinni.

LÓNSHEIÐI
Lónsheiði (389m) var aðalsamgönguleið (til 1981) þar til vegur var lagður um Hvalnes- og Þvottárskriður (1978). Hún er 18 km löng og þröng dalskora milli Lóns og Álftafjarðar og er á mörkum Austur-Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu. Þessi fjallvegur reyndist mörgum skeinuhættur, einkum urðu óhöpp, þegar bremsur stórra bíla biluðu.

ALMANNASKARÐ
Almannaskarð (152m) er í þrengslum milli brattra fjalla, Fjarðarfjalls (888m), Hádegistinds (724m) og Skarðstinds (488m) og vegurinn upp í það að vestanverðu er mjög brattur og varasamur í hálku. Um þetta skarð liggur þjóðvegurinn milli Hornafjarðar og Lóns.

Hinn 23. júlí 2003 fór lítil jeppabifreið með fellihýsi í eftirdragi út af veginum niður úr skarðinu til vesturs. Hjón í bílnum biðu bana.
Hafizt var handa við jarðgangagerðina árið 2004.

Myndasafn

Í grennd

Austurland, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Jökulsárlóni að Bakkafirði. Þéttbýlis- og merkisstaða og afþreyingar innan svæðisins er sérstaklega getið neðan v…
Jarðfræði Austurland
Við boranir á Austurlandi kom í ljós, að gangberg er u.þ.b. 50% bergs á 3 km dýpi. Á Austurlandi eru a.m.k. 14 megineldstöðvar. Líklega eru Austfirðir…
Sögustaðir Austurlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landsins Aðalból Álfaborg Álfatrú Álftafjörður Ás í Fellum Ás í Fellum Áskirkja …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )