Grundarfjörður er sérlega fagur fjörður, umluktur fjöllum á þrjá vegu, sem eiga vart sinn líkan að fjölbreytni, og er þar Kirkjufell mest áberandi. Samnefnt kauptún er staðsett í vinalegu umhverfi inni í firðinum og er þar mikil fiskvinnsla og útgerð. Í botni Grundarfjarðar á Grundarkampi er forn verslunarstaður og eru þar tóftir allt frá tímum einokunarverslunarinnar.
Grundarfjörður fékk kaupstaðaréttindi árið 1787, en þau voru tekin aftur 1836. Um aldarmótin 1800 fengu Frakkar aðsetur í Grundarfirði og byggðu þar m.a. sjúkraskýli og kirkju. Þeir fóru þaðan um 1860. Frá Grundarkampi er ágæt gönguleið að Grundarfossi og Kvernárfossi. Næsti fjörður vestan Grundarfjarðar er Kolgrafafjörður, sem hét forðum Urthvalafjörður, síðar Hvalafjörður og Hvalfjörður áður en hann fékk núverandi nafn. Þar næst kemur Hraunsfjörður, sem dregur nafn af Berserkjahrauni.
Sveitarfélagið hét Eyrarsveit frá landnámstíð þar til árið 2000 að heitinu var breytt í Grundarfjarðarbær.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 185 km.
Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja og eigandi nat.is
Vængir:
Flugfélagið Vængir starfaði á árunum 1970 til 1979. Það stundaði áætlunar- og leiguflug aðallega til staða á vesturlandi (Búðardals, Stykkishólms, Grundarfjörð, Rifs og Reykhóla), vestfjörðum (Tálknafjarðar, Bíldudals, Þingeyrar, Flateyrar, Hólmavíkur og Gjögurs) og á norðurlandi (Hvammstanga, Blönduóss, Siglufjarðar og Mývatns). Í flugflota Vængja voru flugvélar af ýmsum gerðum m.a. Beechcraft 18 og Piper PA-23 Apache. Vængir varð fyrsta flugfélagið hérlendis til að taka í notkun flugvél af gerðinni BN-2a Islander (1971) og fyrsta félagið hérlendis til að taka í notkun DHC-6 Twin Otter (1973).