Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Búlandshöfði

Búlandshöfði steypist snarbrattur í sjó fram milli Snæfellsbæjar og Grundarfjarðar, um Búlandsgil eru mörkin milli sveitarfélaganna. Hann var mestur ferðatálmi á leiðinni umhverfis Snæfellsnes, einkum á veturna, þegar flughált var í brattlendinu. Ef einhverjum skrikaði fótur á leiðinni, beið þeirra dauðinn einn. Í Búlandshöfða var tæpast í Þrælaskriðu, þar sem þrælar frá Mávahlíð fórust, þegar þeir voru að leita sér undankomu. (Eyrbyggja). Á slóðum Þrælaskriðunnar er nú komið bílastæði og þar sér vítt yfir. Sumum fannst jafnvel akvegurinn sem gerður var fyrst þarna árið 1962 allhrikalegur en hann var bættur verulega á árunum 1998-2000.

Á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar setti dr. Helgi Pjetursson fram kenningu sem var byltingakennd í jarðfræði heimsins. Helgi var mjög þekktur á þeim tíma og vitnað til rannsókna hans um allan heim. Kenning hans gekk út á það að ísöldin hefði ekki verið einn samfelldur fimbulvetur heldur að hlýskeið hefðu verið á milli kuldaskeiða. Þær ályktanir dró hann af jökulbergslögum sem hann fann í “móbergsmynduninni” bæði í hreppum austur og á norðanverðu Snæfellsnesi. Einn af lykilstöðum hans var í Búlandshöfða.(Dr. Haukur Jóhannesson. Munnl. heimild.) Flestir jarðfræðingar sem fjölluðu um þetta efni aðhyltust þessa kenningu. (Dr. Sigurður Þórarinsson. Náttúra Íslands 1961)

Í jökulsbergslagi, í dalverpi nokkru fyrir ofan þjóðveg í Búlandshöfða, í 135-180 m. yfir sjó fann dr. Helgi mikið af skeljabrotum og þó sumar heilar og einnig ísrákaða steina. Tuttugu tegundir af sjávardýrum fundust þarna en merkilegust af þeim er skel sú, er nefnd er Portlandia eða Yoldia arctica sem nefnist jökultodda á íslensku og lifir nú í eðjunni fyrir utan jöklana sem ganga í sjó fram nyrst á Grænlandi og Svalbarða. (Dr. Helgi Pejturss. Yoldialagið í Búlandshöfða. Ferðabók 1959). Jarðlag þetta sem er 30-50 m. á þyk gerir kleift að ígrunda sveiflukennda loftlagssögu tengda jarðmyndun Íslands. Sæmilega auðveld gönguleið að þessum minjum er upp með Búlandsgililinu að vestan.

Aðstoðarmaður jarðfræðingsins dr. Helga Péturss við rannsóknirnar í Búlandshöfða var Helgi Salómonsson í Mávahlíð. Hann tók sér síðar ættarnafnið Hjörvar.

Í Búlandshöfða austanverðum blasir við fjallið Brimlárhöfði eða Stöð. Þar eru einnig ríkulegar jarðsögulegar minjar. Þar ber mest á skeljum, en þar finnast einnig frjókorn og steingervingar trjáa og jurta. víðir, fura, björk, elrir, greni og ýmis grös. (Jóhannes Áskelsson. Náttúra Íslands 1961).

Báðir þessir staðir eru um einnar miljónar ára gamlir. Jarðlögin fyrir neðan setlögin eru um 7-8 miljóna ára gömul og rofin áður en setlögin mynduðust. Þar fyrir ofan er stafli hraunlaga frá hlýskeiðum ísaldar og móbergs og jökulbergs frá jökulskeiðum. Efst eru svo Höfðakúlurnar sem að líkindum eru frá síðasta jökulskeiði. (Dr. Haukur Jóhannesson).

Myndasafn

Í grennd

Grundarfjörður
Grundarfjörður er sérlega fagur fjörður, umluktur fjöllum á þrjá vegu, sem eiga vart sinn líkan að fjölbreytni, og er þar Kirkjufell mest áberandi. Sa…
Ólafsvík
Byggð myndaðist snemma í Ólafsvík, enda góð fiskimið úti fyrir og góð lending. Hafnaraðstaða var bætt mjög um miðja 20. öldina og óx byggðin hratt í k…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )