Útifyrir nesinu er Grótta með sinn fræga Gróttuvita en þar er fjölbreytt fuglalíf og landið friðlýst. Mjög er áhugavert að stunda gönguferðir um Seltjarnarnes og þá sérstaklega um fjörur og í kringum Bakkatjörn en þar, sem víðast á nesinu, er einnig fjölbreytt fuglalíf.
Stórkostlegt útsýni er frá nesinu út yfir Faxaflóa og sólarlagið þar þykir undurfagurt. Bæjarmörk Seltjarnarness og Reykjavíkur eru ekki merkjanleg en samruni bæjarfélaganna er ekki fyrirsjáanlegur, enda Seltirningar stoltir og ánægðir með sitt sveitarfélag, og það að sönnu.